Félagsbústaðir vara við alvarlegum fjárhagslegum afleiðingum nýs frumvarps til breytinga á húsaleigulögum sem nú liggur fyrir Alþingi, en það kveður m.a. á um að leiguverð tímabundinna leigusamninga megi ekki taka breytingum fyrstu tólf mánuði leigutímans.

Þetta kemur fram í umsögn Félagsbústaða í samráðsgátt.

Að mati félagsins mun þessi breyting ein og sér leiða til tekjusamdráttar upp á um 30 milljónir króna á ársgrundvelli, þar sem félagið hefur hingað til gert verðtryggða samninga í samræmi við verðtryggðar skuldbindingar sínar.

Félagsbústaðir eru óhagnaðardrifið félag og stærsti eigandi félagslegs húsnæðis á landinu með rúmlega 3.100 íbúðir í útleigu. Verðtryggðar leigutekjur hafa verið lykilþáttur í því að viðhalda fjárhagslegu jafnvægi í rekstri félagsins.

„Telja stjórnendur Félagsbústaða að boðuð breyting muni hafa bein áhrif á verðtryggingarjöfnuð félagsins og er tekjusamdráttur metinn um 30 m.kr. á ársgrundvelli. Reyndar má ætla að verði frumvarpið óbreytt að lögum þá muni það ógna fjárhagslegri sjálfbærni Félagsbústaða, enda grunnforsenda viðskiptalíkans félagsins að allar leigutekjur séu verðtryggðar,“ segir í umsögninni.

Félagið bendir einnig á að löggjafinn virðist ekki gera greinarmun á hagnaðardrifnum og óhagnaðardrifnum leigufélögum í þessu sambandi, og því lendi Félagsbústaðir í sama farvegi og almennir leigufélagar á markaði.

Ekkert svigrúm til að breyta samningsformi

Þótt frumvarpinu sé ætlað að hvetja til notkunar ótímabundinna leigusamninga í stað tímabundinna áréttar Félagsbústaðir að slíkt sé ekki mögulegt í þeirra tilviki.

Samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar, sem úthlutar íbúðum félagsins, skal fyrsti leigusamningur vera tímabundinn til þriggja ára. Samningar um áfangahúsnæði eða úrræði með stuðningi eru jafnframt gerðir tímabundnir í samræmi við reglur borgarinnar og ástand leigutaka.

Fram kemur í umsögninni að verði frumvarpið að lögum óbreytt muni það veikja forsendur viðskiptalíkans félagsins.

Fyrir liggur að Félagsbústaðir hafa á síðustu árum gripið til aðhaldsaðgerða vegna rekstrarþrýstings. Í mars greindi Viðskiptablaðið frá því að félagið hefði dregið úr viðhaldi og hægt á kaupum vegna þrýstings á reksturinn, og í janúar kom fram að 15 íbúðir hefðu verið seldar með 25% afslætti frá fasteignamati, í því skyni að bæta lausafjárstöðu félagsins.

Endurmatið gaf sterka vísbendingu um að eignasafn Félagsbústaða væri verulega ofmetið. Endurmatið hefur verið fært til tekna hjá Reykjavíkurborg og þar með bætt afkomu borgarinnar.

Á árunum 2020-2024 var afkoma A og B hluta Reykjavíkurborgar jákvæð um 24,8 milljarða króna. Ef endurmati er sleppt, líkt og endurskoðendur sem Viðskiptablaðið hefur rætt við, þá hefði afkoman verið neikvæð um 25,8 milljarða.

Samkvæmt Félagsbústöðum mun þessi nýja 12 mánaða regla, ef hún verður að lögum, vera enn eitt höggið á fjárhagsstöðu félagsins í ljósi fyrri niðurskurðaraðgerða og vaxandi verðbólgu.

Þá vekur félagið athygli á því að frumvarpinu sé einkum ætlað að takmarka hækkun leiguverðs á almennum markaði og bregðast við framhjáhlaupum hagnaðardrifinna leigufélaga, ekki óhagnaðardrifinna sveitarfélagaeigna með lagaskyldur.

„Að mati félagsins hefur löggjafinn ekki tekið nægilegt tillit til sérstöðu leigufélaga sem annast útleigu félagslegra leiguíbúða á grundvelli lagaskyldu, s.s. félagslegt leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga, en öll starfsemi þeirra og ákvarðanir um leiguverð eru teknar á öðrum forsendum en á almennum leigumarkaði. Telja Félagsbústaðir mikilvægt að haft sé í huga að boðaðar breytingar á húsaleigulögum, þ.e. bann við breytingu leiguverðs á fyrstu 12 mánuðum leigutíma, eru íþyngjandi og einkum boðaðar vegna hagnaðardrifinna leigufélaga en einnig látnar taka til óhagnaðardrifinna félaga,“ segir í umsögninni.