Norska lággjaldaflugfélagið Norse birti í gær uppgjör fyrir árið 2024. Flugfélagið, sem var stofnað í febrúar 2021 og fór í jómfrúarflug sitt til New York í júní ári síðar, skilaði tæplega 135,5 milljóna dala tapi, sem nemur 18,7 milljörðum króna, á árinu 2024.
Til samanburðar tapaði félagið 168,6 milljónum dala árið áður sem nemur 23,2 milljörðum króna. Samanlagt tap félagsins árin 2023-2024 nam því rúmlega 304 milljónum dala, eða sem nemur 42 milljörðum króna miðað við meðalgengi Bandaríkjadollars á tímabilinu.
„Þetta undirstrikar mikilvægi þess fyrir flugfélag í örum vexti að ná jafnvægi milli einingatekna og einingakostnaðar,“ segir Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi og ráðgjafi á flugmarkaði, í Linkedin-færslu sem hann birti í gær um uppgjör Norse.
Þrátt fyrir erfiða stöðu má sjá jákvæð teikn á lofti á árinu 2024. Munur milli einingatekna (RASK) og einingakostnaðar (CASK) dróst saman milli ára, var 0,79 Bandaríkjasent samanborið við 1,56 sent árið áður.
Hins vegar jókst framboð sætiskílómetra talsvert milli ára, nam 12,32 milljónum sætiskílómetra á árinu 2024 samanborið við 8,67 milljónir árið áður – sem leiddi til þess að munurinn á einingatekjum og einingakostnaði setti strik í reikning Norse á liðnu ári.
Norse áformar að skila þremur Boeing 788-vélum til leigusala sinna snemma á næsta fjárhagsári. Þá stefnir félagið á að leigja sex af tólf B789-vélum sínum til indverska flugfélagsins IndiGo. Ein B789-vél er nú þegar á leið til Indlands og þá hefur félagið staðfest samninga um að framleigja þrjár Boeing 789-vélar til IndiGo á seinni hluta ársins 2025.
Samningstímabilið fyrir vélarnar eru á bilinu 6-18 mánuðir, með að lágmarki 350 blokktíma á mánuði fyrir hverja flugvél. Haft er eftir Bjørn Tore Larsen, forstjóra Norse, að samningurinn við IndiGo sé einkar hagkvæmur fyrir félagið.
Þetta eru sambærilegar aðgerðir og flugfélagið Play hefur nýlega lagst í. Play tilkynnti á dögunum að það hefði náð samkomulagi um framleigu þriggja véla frá og með næstkomandi vori til ársloka 2027. Fækkar þá vélum í flugflota Play úr tíu í sjö.
Hans bendir á í samtali við Viðskiptablaðið að sterk eftirspurn sé eftir flugvélum af gerðinni A320 á leigumarkaði.
„Þetta ætti að leiða til hagstæðra samninga fyrir Play og gefa félaginu tækifæri til að styrkja stöðu sína á sínum mörkuðum og jafnframt draga úr þeirri áhættu sem felst í því að treysta einungis á tekjur af áætlunarflugi. En gallinn við að minnka flotann, að mínu mati, er sá að stærðarhagkvæmnin minnkar.“
Í Linkedin-færslunni ber Hans saman lykiltölur hjá Norse og Play.
Eins og áður voru einingatekjur Norse 4,77 Bandaríkjasent á síðasta ári, en námu 4,9 sentum hjá Play. Þá var einingakostnaður 5,56 Bandaríkjasent hjá Norse en 5,6 sent hjá Play.
Þ.a.l. var tap á hvern sætiskílómetra nokkuð keimlíkt hjá félögunum tveimur – 0,79 sent hjá Norse en 0,7 sent hjá Play. Hins vegar endaði heildartapið á að vera talsvert meira hjá Norse samanborið við Play – sem skýrist m.a. af því að framboðnir sætiskílómetrar hjá Norse voru 12,3 milljónir samanborið við 5,79 milljónir hjá Play.
Nánar er fjallað um stöðu íslensku flugfélaganna í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.
Hér að neðan má síðan lesa Linkedin-færslu Hans Jørgen Elnæs fluggreinanda: