Foobar Iceland ehf., fjárfestingarfélag Davíðs Helgasonar á Íslandi, tapaði 23,8 milljörðum króna árið 2021 sem má einkum rekja til virðisbreytingar á eignarhlut hans í Unity Software í desembermánuð þess árs. Við samruna við tvö dönsk félög í eigu Davíðs í lok nóvember 2021 tók Foobar Iceland, sem var stofnað í september sama ár, við eignarhlut hans í hugbúnaðarfyrirtækinu Unity Software.
Eignir Foobar Iceland, er í eigu sjóðsins Nordeq Trust Limited á Nýja-Sjálandi, voru bókfærðar á 211 milljarða króna í árslok 2021 og eigið fé var 201 milljarður.
Langstærsta eign Foobar Iceland er eignarhlutur Davíðs í Unity, sem var þá um 9,2 milljónir að nafnverði eða sem nemur 3,1% hlut, en hann var bókfærður á 182,7 milljarðar króna í árslok 2021 þegar gengi Unity stóð í 143 dölum á hlut.
Unity lækkaði um 80% í fyrra
Unity var skráð á bandarískan hlutabréfamarkað haustið 2020 og var útboðsgengið í frumútboðinu 52 dalir á hlut. Gengið hækkaði verulega eftir skráningu og fór hæst yfir 200 dali í nóvember 2021. Fyrirtækið fór hins vegar ekki varhluta af neikvæðri þróun á virði tæknifyrirtækja í fyrra. Hlutabréfaverð Unity, sem er hvað þekktast fyrir að þróa hugbúnað fyrir tölvuleikjagerð, féll um 80% á síðasta ári og stóð í 28,6 dölum um í árslok 2022.
Virði eignarhlutar Davíðs í Unity lækkaði úr 1,3 milljörðum dala í um 261 milljón dala árið 2022, eða um meira en einn milljarð dala. Tap Davíðs af gengislækkun Unity í fyrra, miðað við núverandi gengi krónunnar, var nærri 150 milljarðar króna. Það samsvarar að jafnaði yfir 12 milljarða króna tapi á mánuði og um 400 milljóna króna tapi á dag.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.