Ás­geir Jóns­son, seðla­banka­stjóri, segir að á­kvörðun peninga­stefnu­nefndar um að hækka fasta vaxta­lausa bindi­skyldu lána­stofnana úr 2% í 3% af bindi­grunni hafi verið nauð­syn­leg þar sem Seðla­bankinn greiddi fjár­mála­stofnunum tæp­lega 20 milljarða króna í inn­láns­vexti í fyrra.

Í yfir­lýsingu nefndarinnar sem birtist í morgun segir að „skamm­tíma­á­hrif breytingarinnar“ ættu að vera „tak­mörkuð“. En „til lengri tíma mun hún hins vegar skjóta traustari fótum undir rekstur peninga­stefnunnar og þannig auka trú­verðug­leika Seðla­bankans og stuðla að bættri skil­virkni peninga­stefnunnar.“

Ás­geir sagði á árs­fundi Seðla­bankans í kvöld að vaxta­jöfnuður Seðla­bankans hafi verið nei­kvæður um 9,4 milljarða króna í fyrra. Vaxta­jöfnuður bankans hefur í raun verið nei­kvæður sam­fleytt frá árinu 2015 ef undan er skilið árið 2020 þegar stýri­vextir bankans voru sögu­lega lágir.

„Þótt seðla­bankar séu ekki hagnaðar­drifnir og geti tækni­lega séð ekki orðið gjald­þrota í heima­gjald­miðli sínum þá hefur fjár­hags­staða þeirra á­hrif á trú­verðug­leika þeirra. Stundum hefur verið litið á eigið fé þeirra sem eins konar fót undir verð­mæti seðla­út­gáfu þeirra. En í öllu falli er ljóst að tap­rekstur seðla­banka felur í sér raun­veru­lega til­færslu á verð­mætum út í hag­kerfið. Það er því af þessum sökum sem það er al­menn al­þjóð­leg á­hersla að seðla­bankar haldi vel utan um eigið fé sitt, meðal annars til þess að tryggja trú­verðug­leika,” sagði Ás­geir á árs­fundinum.

Eigin­fjár­mark­mið Seðla­banka Ís­lands, stað­fest af banka­ráði sam­kvæmt lögum, er 150 milljarðar en um ára­mótin síðustu var eigið fé bankans 101 milljarðar.

Í lok síðasta árs­fjórðungs hafði það lækkað í 95 milljarða sem þýðir að eigið fé bankans var 55 milljarða undir eigin­fjár­mark­miðinu.

„Seðla­banki Ís­lands er ekki einn á báti þegar kemur að halla­rekstri. Flestir, ef ekki allir, vest­rænir seðla­bankar búa nú við nei­kvæðan vaxta­mun sem er af­leiðing af um­fangs­mikilli magn­bundinni í­hlutun eftir fjár­mála­kreppuna 2008. Það fól í sér að seðla­bankar prentuðu peninga með því að kaupa ríkis­skulda­bréf, og jafn­vel fyrir­tækja­skulda­bréf og hluta­bréf. Þessi stefna stóð í um ára­tug og nú sitja bankarnir uppi með bæði stórt og bólgið eigna­safn sem hefur fallið gríðar­lega í verði eftir að vextir tóku að hækka,” sagði Ás­geir.

Ásgeir sagði jafnframt að Seðla­bankinn eigi erfitt með að vinda niður þessi eigna­söfn án þess að valda upp­námi á mörkuðum.

„Jafn­framt er erfitt að vinda niður þessi eigna­söfn án þess að valda upp­námi á mörkuðum. Of­gnótt lausa­fjár sem ríkt hefur í flestum vest­rænum ríkjum hefur orðið til þess að við­komandi seðla­bankar hafa dregið inn fé á efna­hags­reikning sinn með því að bjóða inn­láns­reikninga. Því fylgja gríðar­leg fjár­út­lát.”

Seðla­bankar víðs vegar um heim hafa verið að grípa til ýmissa að­gerða til að styrkja eigin­fjár­stöðu sína, sagði Ás­geir. Að­gerðir sem fela m. a. í sér eigin­fjár­inn­spýtingu frá ríkis­sjóði, hækkun vaxta­lausrar bindi­skyldu, sér­stakt gjald á inn­láns­stofnanir og lækkun vaxta­greiðslna til ríkis­sjóðs.

„Ný lög um sænska seðla­bankann kveða á um að bankinn skuli inn­kalla eigið fé frá ríkinu fari eigið fé undir skil­greinda lág­marks­upp­hæð svo ekki komi til að bankinn verði í við­varandi nei­kvæðri eigin­fjár­stöðu eins og raunin varð árið 2022. Eng­lands­banki á­kvað ný­lega að leggja gjald á inn­láns­stofnanir til að standa straum af kostnaði við fram­kvæmd stefnu bankans. Það krefst laga­breytingar og tekur tíma,“ sagði Ás­geir.

„Þá hafa seðla­bankar Evrópu og Noregs lækkað vexti á inn­stæðum ríkis­sjóða sinna og bindi­skylda hefur verið hækkuð. Auk þess hefur Seðla­banki Evrópu lækkað vexti á bindi­skylda fjár­hæð í 0%. 11 Seðla­banki Ís­lands verður að grípa til á­þekkra að­gerða til þess að ná betra jafn­vægi í vaxta­jöfnuði sínum og endur­skoða þau vaxta­kjör sem helstu mót­aðilar, líkt og ríkis­sjóður og lána­stofnanir, njóta í bankanum með það að mark­miði að dreifa betur kostnaði sem fylgir því að reka sjálf­stæða peninga­stefnu og treysta sjálf­bæra fjár­mögnun gjald­eyris­forða þjóðarinnar,“ sagði Ásgeir.

„Ber þá von í brjósti að við náum mjúkri lendingu í efna­hags­lífinu“

Ás­geir sagði að mark­mið sitt sem Seðla­banka­stjóri frá því hann tók við stöðunni árið 2019 hafi verið „komast aftur fyrir Ólafs­lög – ef smá á orði komast“ svo hægt sé að byggja aftur upp nafn­vaxta­kerfi hér líkt og þekkist hjá öðrum þjóðum.

Hann sagði jafn­framt margar á­stæður fyrir því að al­menn verð­trygging skapi vanda­mál fyrir peninga­stefnuna á Ís­landi sem og fjár­mála­kerfið í heild en tók þó fram að þótt hækkun stýri­vaxta hafi þyngt greiðslu­byrði ó­verð­tryggðra lána, þá hefur verð­bólgu­skellur ekki lent á þeim af sama þunga og ef þau væru verð­tryggð.

„Sér­stak­lega á þetta við þá lán­tak­endur sem festu vexti á lánum sínum og hafa því notið nei­kvæðra raun­vaxta, en það er í fyrsta skipti frá árinu 1979 sem það hefur gerst. Vita­skuld er ekki hægt að við­halda nafn­vaxta­kerfi með nei­kvæðum raun­vöxtum til langs tíma ef verð­myndun er frjáls. Lítil verð­bólga er því for­senda þess að breyti­legir nafn­vextir gangi upp sem lána­form. Seðla­bankinn hækkaði vexti til þess að bregðast við mikilli verð­bólgu. Bankinn mun aftur lækka vexti þegar verð­bólga hjaðnar.”

Í loka­orðum sínum sagði Ás­geir að Ís­lendingar væru á réttri leið. Verð­bólga væri að hjaðna þó hægar en Seðla­bankinn hefði óskað sér.

„Mikill hag­vöxtur hefur ekki verið drifinn á­fram af skuld­setningu eða út­lána­vexti og raunar hafa skuldir bæði heimila og fyrir­tækja lækkað fremur hratt að raun­virði hin síðari misseri. Þá ríkir stöðug­leiki í greiðslu­jöfnuði landsins þar sem krónan hefur verið stöðug og studd af við­skipta­af­gangi. Ég er bjart­sýnn að eðlis­fari og ber þá von í brjósti að við náum mjúkri lendingu í efna­hags­lífinu en til þess þurfum við að halda rétt á spilunum,” sagði Ás­geir að lokum.