Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir að ákvörðun peningastefnunefndar um að hækka fasta vaxtalausa bindiskyldu lánastofnana úr 2% í 3% af bindigrunni hafi verið nauðsynleg þar sem Seðlabankinn greiddi fjármálastofnunum tæplega 20 milljarða króna í innlánsvexti í fyrra.
Í yfirlýsingu nefndarinnar sem birtist í morgun segir að „skammtímaáhrif breytingarinnar“ ættu að vera „takmörkuð“. En „til lengri tíma mun hún hins vegar skjóta traustari fótum undir rekstur peningastefnunnar og þannig auka trúverðugleika Seðlabankans og stuðla að bættri skilvirkni peningastefnunnar.“
Ásgeir sagði á ársfundi Seðlabankans í kvöld að vaxtajöfnuður Seðlabankans hafi verið neikvæður um 9,4 milljarða króna í fyrra. Vaxtajöfnuður bankans hefur í raun verið neikvæður samfleytt frá árinu 2015 ef undan er skilið árið 2020 þegar stýrivextir bankans voru sögulega lágir.
„Þótt seðlabankar séu ekki hagnaðardrifnir og geti tæknilega séð ekki orðið gjaldþrota í heimagjaldmiðli sínum þá hefur fjárhagsstaða þeirra áhrif á trúverðugleika þeirra. Stundum hefur verið litið á eigið fé þeirra sem eins konar fót undir verðmæti seðlaútgáfu þeirra. En í öllu falli er ljóst að taprekstur seðlabanka felur í sér raunverulega tilfærslu á verðmætum út í hagkerfið. Það er því af þessum sökum sem það er almenn alþjóðleg áhersla að seðlabankar haldi vel utan um eigið fé sitt, meðal annars til þess að tryggja trúverðugleika,” sagði Ásgeir á ársfundinum.
Eiginfjármarkmið Seðlabanka Íslands, staðfest af bankaráði samkvæmt lögum, er 150 milljarðar en um áramótin síðustu var eigið fé bankans 101 milljarðar.
Í lok síðasta ársfjórðungs hafði það lækkað í 95 milljarða sem þýðir að eigið fé bankans var 55 milljarða undir eiginfjármarkmiðinu.
„Seðlabanki Íslands er ekki einn á báti þegar kemur að hallarekstri. Flestir, ef ekki allir, vestrænir seðlabankar búa nú við neikvæðan vaxtamun sem er afleiðing af umfangsmikilli magnbundinni íhlutun eftir fjármálakreppuna 2008. Það fól í sér að seðlabankar prentuðu peninga með því að kaupa ríkisskuldabréf, og jafnvel fyrirtækjaskuldabréf og hlutabréf. Þessi stefna stóð í um áratug og nú sitja bankarnir uppi með bæði stórt og bólgið eignasafn sem hefur fallið gríðarlega í verði eftir að vextir tóku að hækka,” sagði Ásgeir.
Ásgeir sagði jafnframt að Seðlabankinn eigi erfitt með að vinda niður þessi eignasöfn án þess að valda uppnámi á mörkuðum.
„Jafnframt er erfitt að vinda niður þessi eignasöfn án þess að valda uppnámi á mörkuðum. Ofgnótt lausafjár sem ríkt hefur í flestum vestrænum ríkjum hefur orðið til þess að viðkomandi seðlabankar hafa dregið inn fé á efnahagsreikning sinn með því að bjóða innlánsreikninga. Því fylgja gríðarleg fjárútlát.”
Seðlabankar víðs vegar um heim hafa verið að grípa til ýmissa aðgerða til að styrkja eiginfjárstöðu sína, sagði Ásgeir. Aðgerðir sem fela m. a. í sér eiginfjárinnspýtingu frá ríkissjóði, hækkun vaxtalausrar bindiskyldu, sérstakt gjald á innlánsstofnanir og lækkun vaxtagreiðslna til ríkissjóðs.
„Ný lög um sænska seðlabankann kveða á um að bankinn skuli innkalla eigið fé frá ríkinu fari eigið fé undir skilgreinda lágmarksupphæð svo ekki komi til að bankinn verði í viðvarandi neikvæðri eiginfjárstöðu eins og raunin varð árið 2022. Englandsbanki ákvað nýlega að leggja gjald á innlánsstofnanir til að standa straum af kostnaði við framkvæmd stefnu bankans. Það krefst lagabreytingar og tekur tíma,“ sagði Ásgeir.
„Þá hafa seðlabankar Evrópu og Noregs lækkað vexti á innstæðum ríkissjóða sinna og bindiskylda hefur verið hækkuð. Auk þess hefur Seðlabanki Evrópu lækkað vexti á bindiskylda fjárhæð í 0%. 11 Seðlabanki Íslands verður að grípa til áþekkra aðgerða til þess að ná betra jafnvægi í vaxtajöfnuði sínum og endurskoða þau vaxtakjör sem helstu mótaðilar, líkt og ríkissjóður og lánastofnanir, njóta í bankanum með það að markmiði að dreifa betur kostnaði sem fylgir því að reka sjálfstæða peningastefnu og treysta sjálfbæra fjármögnun gjaldeyrisforða þjóðarinnar,“ sagði Ásgeir.
„Ber þá von í brjósti að við náum mjúkri lendingu í efnahagslífinu“
Ásgeir sagði að markmið sitt sem Seðlabankastjóri frá því hann tók við stöðunni árið 2019 hafi verið „komast aftur fyrir Ólafslög – ef smá á orði komast“ svo hægt sé að byggja aftur upp nafnvaxtakerfi hér líkt og þekkist hjá öðrum þjóðum.
Hann sagði jafnframt margar ástæður fyrir því að almenn verðtrygging skapi vandamál fyrir peningastefnuna á Íslandi sem og fjármálakerfið í heild en tók þó fram að þótt hækkun stýrivaxta hafi þyngt greiðslubyrði óverðtryggðra lána, þá hefur verðbólguskellur ekki lent á þeim af sama þunga og ef þau væru verðtryggð.
„Sérstaklega á þetta við þá lántakendur sem festu vexti á lánum sínum og hafa því notið neikvæðra raunvaxta, en það er í fyrsta skipti frá árinu 1979 sem það hefur gerst. Vitaskuld er ekki hægt að viðhalda nafnvaxtakerfi með neikvæðum raunvöxtum til langs tíma ef verðmyndun er frjáls. Lítil verðbólga er því forsenda þess að breytilegir nafnvextir gangi upp sem lánaform. Seðlabankinn hækkaði vexti til þess að bregðast við mikilli verðbólgu. Bankinn mun aftur lækka vexti þegar verðbólga hjaðnar.”
Í lokaorðum sínum sagði Ásgeir að Íslendingar væru á réttri leið. Verðbólga væri að hjaðna þó hægar en Seðlabankinn hefði óskað sér.
„Mikill hagvöxtur hefur ekki verið drifinn áfram af skuldsetningu eða útlánavexti og raunar hafa skuldir bæði heimila og fyrirtækja lækkað fremur hratt að raunvirði hin síðari misseri. Þá ríkir stöðugleiki í greiðslujöfnuði landsins þar sem krónan hefur verið stöðug og studd af viðskiptaafgangi. Ég er bjartsýnn að eðlisfari og ber þá von í brjósti að við náum mjúkri lendingu í efnahagslífinu en til þess þurfum við að halda rétt á spilunum,” sagði Ásgeir að lokum.