TDK Foil Iceland, sem áður hét Becromal og hefur rekið aflþynnuverksmiðju í Krossanesi á Akureyri frá árinu 2009, tapaði tæplega 3,5 milljónum evra, um 516 milljónum króna, á síðasta rekstrarári sem lauk í lok mars 2024.

Til samanburðar tapaði verksmiðjan ríflega 4,5 milljónum evra rekstrarárið á undan - ígildi 655 milljóna króna á gengi þess tíma. Þar áður tapaði félagið 946 milljónum króna.

Því nemur samanlagt tap verksmiðjunnar rúmlega 2,1 milljörðum króna á síðastliðnum þremur rekstrarárum.

Félagið er dótturfélag TDK Foil Italy SpA á Ítalíu sem er með höfuðstöðvar í Mílanó. Endanlegt móðurfélag samstæðunnar er TDK Corporation í Tókýó. TDK framleiðir aflþynnur úr áli sem eru síðan nýttar í ýmis konar iðnaði. Tæplega hundrað manns störfuðu hjá félaginu hér á landi á árinu.

Heildartekjur námu 9,5 milljörðum króna og lækkuðu um 15,5% milli ára. Framlegð nam rúmum 1,1 milljarði króna og jókst um 28% á milli ára.

Heildareignir í lok tímabils námu 8,7 milljörðum króna og jukust um 5% milli ára en skuldir jukust um 8% og námu 12,7 milljörðum króna. Eigið fé félagsins hefur verið neikvætt frá rekstrarárinu 2016/17, og var neikvætt um 4,1 milljarða króna í lok rekstrarárs, samanborið við 3,6 milljarða króna árið áður.

Í skýrslu stjórnar segir að á reikningsárinu hafi markaðurinn verið verulega veikur. Strax í fyrsta mánuði hafi framleiðsla verið lækkuð niður í 50% af afkastagetu. Þetta hafi verið út haustið, en eftir það hafi orðið bæting á framleiðslu, þó langt frá hámarks afkastagetu.

Síðastliðinn áratug hefur íslenska félagið tvívegis verið rekið með hagnaði, það voru rekstrarárin 2013/14 og og 2018/19. Hagnaður síðarnefnda rekstrarársins kom fyrst og fremst til vegna afskriftar af láni móðurfélagsins.

Hefði ekki komið til afskriftar lánsins hefði tap verksmiðjunnar að öðru óbreyttu numið um 700 milljónum króna. Með afskrift lánsins batnaði eiginfjárstaða íslenska félagsins úr því að vera neikvæð um 5,2 milljarða króna í að vera neikvæð um 800 milljónir króna.