Heildar­tekjur í við­skipta­hag­kerfinu, án fjár­mála- og vá­trygginga­starf­semi, voru tæp­lega 6.298 milljarðar króna árið 2022 saman­borið við 5.215 milljarða króna árið 2021, sam­kvæmt Hag­stofu Ís­lands.

„Hækkunin var ó­venju mikil líkt og árið 2021, eða um 21% mælt á verð­lagi hvers árs og vel um­fram verð­bólgu ársins sem var 8,3%. Þetta var jafn­framt mesta hækkun heildar­tekna síðan 2006 en þá jukust tekjur um 24% á milli ára. Aukin eftir­spurn, verð­bólga og stýri­vaxta­hækkanir ein­kenndu árið þar sem af­koma fyrir­tækja var góð en mikill tekju­vöxtur veginn niður af vaxandi fjár­magns- og að­fanga­kostnaði,” segir á vef Hag­stofunnar.

Sam­kvæmt út­reikningum Hag­stofunnar á ferða­þjónustan stóran þátt í aukningunni en ferða­þjónusta á Ís­landi er aftur orðin næst­stærsta at­vinnu­grein landsins.

„Mest var hækkun tekna í ein­kennandi greinum ferða­þjónustu en heildar­tekjur ferða­þjónustunnar námu tæp­lega 748 milljörðum króna sem var 79% aukning frá fyrra ári. Tekjurnar voru þar með orðnar meiri að raun­virði en fyrir kórónu­veirufar­aldurinn árið 2019 og greinin aftur sú næst­stærsta árið 2022 eða alls 12% af við­skipta­hag­kerfinu.“

Sam­kvæmt Hag­stofunni var mikill vöxtur í öllum undir­greinum ferða­þjónustunnar en mest á­berandi var ríf­lega tvö­földun á tekjum í far­þega­flutningum og hjá ferða­skrif­stofum enda opnaðist landið aftur fyrir er­lenda ferða­menn að fullu árið 2022.

Þá var 67% tekju­aukning í rekstri gisti­staða, 71% í leigu á vél­knúnum öku­tækjum og 23% í veitinga­sölu og -þjónustu.

„Af öðrum greinum at­vinnu­lífsins má helst nefna 35% aukningu tekna í fram­leiðslu málma en heims­markaðs­verð á áli hækkaði mjög snarpt snemma árs 2022 auk þess sem gengi krónunnar veiktist. Svipaðra á­hrifa gætti í sjávar­út­vegi þar sem tekjur jukust um 15%. Þá hækkuðu tekjur í sölu á vél­knúnum öku­tækjum um 20%, 19% í byggingu hús­næðis og þróun byggingar­verk­efna og 26% í fram­leiðslu á kvik­myndum, sjón­varps­efni og tón­list en tölu­verður vöxtur hefur átt sér stað í greininni undan­farin ár þar sem tekjur hafa aukist jafnt og þétt um 75% síðan 2018.“

Tekjur í fast­eigna­við­skiptum voru nær ó­breyttar árið 2022 miðað við fyrra ár en mikill vöxtur átti sér stað árið 2021 þegar tekjurnar jukust um 34% og greinin skilaði met­hagnaði.

Tekjur ársins 2022 voru tæp­lega 274 milljarðar króna saman­borið við 275 milljarða króna árið 2021 og því ljóst að snar­lega hægðist á fast­eigna­markaðinum árið 2022. Af 15 stærstu at­vinnu­greinum landsins voru fast­eigna­við­skipti eina greinin þar sem tekjurnar jukust ekki á milli ára.

Þá hækkuðu rekstrar­gjöld við­skipta­hag­kerfisins um 19% á árinu eða 894 milljarða króna. Rekstrar­kostnaður hækkaði í öllum helstu greinum nema fast­eigna­við­skiptum en þar hækkaði þó fjár­magns­kostnaður mikið.

Launakostnaður hækkar um 17%

Launa­kostnaður hækkaði um 183 milljarða króna eða 17% en var engu að síður til­tölu­lega lítið breyttur í hlut­falli af tekjum (19,6% saman­borið við 20,1% árið áður). Fjöldi starfs­manna jókst hins vegar um rúm­lega 8% sem var það mesta síðan 2002.

Hæstur var launa­kostnaður á hvern starfs­mann í sjávar­út­vegi og jókst hann um 18% en starfs­fólki fækkaði einnig um 2% í greininni á milli ára.

„Al­mennt batnaði efna­hagur helstu at­vinnu­greina hag­kerfisins árið 2022. Góð af­koma skilaði auknu eigin fé sem jókst um alls 18% á árinu. Þá batnaði skulda­staða fyrir­tækja sömu­leiðis þar sem heildar­skuldir jukust um einungis 10%, lang­tíma­skuldir hækkuðu um 8% og skamm­tíma­skuldir um 14%. Eignir, sem jukust um 14%, voru því að minna leyti fjár­magnaðar með skuldum og var hlut­fall skulda af eignum alls 53% árið 2022 saman­borið við 55% árið 2021,“ segir á vef Hag­stofunnar.