Tekjur af erlendum ferðamönnum á þriðja ársfjórðungi 2024 námu tæplega 241 milljarði króna samanborið við 235 milljarða á þriðja ársfjórðungi 2023. Þetta kemur fram á síðu Hagstofunnar.
Þar segir að frá október 2023 til september 2024 voru tekjur af erlendum ferðamönnum tæplega 612 milljarðar króna samanborið við 587 milljarða fyrir sama tímabil árinu áður.
Fjöldi starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi var þá 31.571 í október 2024 sem er 1% færri en í október 2023 þegar fjöldinn var 31.815. Á tólf mánaða tímabili frá nóvember 2023 til október 2024 störfuðu að jafnaði um 31.487 í einkennandi greinum ferðaþjónustu samanborið við 31.144 fyrir sama tímabil frá árinu áður.
„Velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi nam 174 milljörðum króna í september til október sem er um það bil 3% aukning samanborið við sama tímabil 2023,“ segir í greiningu.
Þá voru alls 197.735 brottfarir farþega frá Keflavíkurflugvelli í nóvember 2024 samanborið við 193.788 í nóvember 2023. Brottfarir farþega með erlent ríkisfang voru 162.273 samanborið við 148.410 í nóvember 2023 sem er fjölgun farþega um 9% á milli ára.