Ferðamenn eyddu 11,6% lægri fjárhæð á föstu verðlagi hér á landi á fyrstu 10 mánuðum þessa árs en á sama tímabili 2019, en óleiðrétt jókst upphæðin um 3%. Frá miðju ári hefur upphæðin þó verið meiri að raunvirði. Þetta kemur fram í tölum Ferðamálastofu.

Eyðsla meðalferðamannsins jókst um 6% á föstu verðlagi enda dvöl hans orðin heilum degi eða 14% lengri og orðin hátt í 8 dagar. Meðaldvölin var lengri í ár en 2019 í hverjum einasta mánuði yfir tímabilið.

Á móti voru þeir þó 16% færri en árið 2019, en það skýrist einkum af áhrifum heimsfaraldursins sem enn gætti í upphafi árs. Frá því um mitt ár hafa þeir verið hér um bil jafn margir og á samanburðarárinu, og tekjur ferðaþjónustunnar af þeim í heild því aukist að raunvirði.

Eins og sjá má af ofangreindum tölum hefur meðaleyðsla ferðamanna hér á landi dregist saman að raunvirði sé henni deilt niður á dvalardaga, enda dvölin lengst meira en eyðslan aukist á þann mælikvarða. Nánar tiltekið mældist hún 7% minni á föstu verðlagi.

Bent er á í greiningu Ferðamálastofu að slíkt sé viðbúið, þar sem gróft á litið megi gera ráð fyrir að ferðalangar ráðstafi tiltekinni fjárhæð til ferðalagsins, sem ekki sé aukin til samræmis við lengri dvöl.