Samkvæmt greiningu sem KPMG framkvæmdi fyrir Íslandsstofu skilaði ferðaþjónusta tengd ráðstefnu og hvataferðum, svokölluð MICE ferðaþjónusta, (e. Meetings, Incentives, Conferences, Events) tekjum upp á 30 milljarða í fyrra.
Alls sóttu 78.000 ferðamenn landið heim gagngert til að sækja viðburði en það nemur um 4,6% af heildarfjölda erlendra ferðamanna í fyrra. Tekjuhlutfall slíkra ferðamanna er þó 9,3%.
Samkvæmt útreikningum KPMG eru tekjur af hverjum ráðstefnugesti hér á landi að meðaltali 2,1 sinni hærri en af meðal ferðamanni og tekjur af hverjum hvataferðagesti eru 2,7 sinnum hærri en af meðal ferðamanni.
Þá kemur fram í greiningu KPMG að MICE- ferðaþjónusta geti tekið þátt í að draga úr áhrifum árstíðarsveiflu í ferðaþjónustu, en álagspunktar slíkrar ferðaþjónustu eru utan hefðbundinnar háannar íslenskrar ferðaþjónustu.
„Þessi greining staðfestir verðmæti þessa hóps fyrir íslenska ferðaþjónustu. Ísland er í mjög góðri stöðu til þess að sækja í auknum mæli á þennan markhóp. Aðstæður til ráðstefnuhalds hér á Íslandi hafa batnað mikið á undanförnum árum þó að þar megi enn þá gera getur. Þetta er hópur sem gerir miklar kröfur um umhverfislega og félagslega sjálfbærni, og spurn eftir öruggum áfangastöðum og jaðarsvæðum hefur verið að aukast. Okkar styrkur sést meðal annars á því að fjöldi MICE-verkefna hér á landi var strax árið 2022 orðinn meiri en fyrir heimsfaraldur en flest okkar nágrannalönd okkar gera sér von um að ná þeim árangri 2025 eða 2026,“ segir Lína Petra Þórarinsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.
Að mati KPMG eru takmarkanir á innviðum það helsta sem kemur í veg fyrir aukin umsvif MICE ferðaþjónustu.
Þörf sé á auknu framboði 4-5 stjörnu gistirýma. Þá vanti veitingarými fyrir stærri hópa, og þörf sé fyrir breytileg sýningasvæði og viðburðarými svo eitthvað sé nefnt.