Tekjur vefverslunarinnar Boozt hækkuðu um 16% milli árið 2022. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu til sænsku kauphallarinnar í kvöld.
Veltan á fjórða ársfjórðungi jókst um 24%. Nóvember var yfir áætlun og einnig fyrri hluti desember.
Ebit fyrir allt árið var 286 milljónir sænskra króna, um eða tæpir fjórir milljarðar íslenskra króna. Stærstur hlutinn, eða 170 milljónir sænskra króna raungerðist á fjórða ársfjórðungi.
Gengi Boozt hrundi á fyrri helmingi ársins. En síðustu sex mánuðina hefur það hækkað um 71%. Ef horft er ár aftur í tímann hefur gengið lækkað um 31%.
Hermann Haraldsson hefur verið forstjóri Boozt frá árinu 2010. Viðskiptablaðið tók viðtal við hann í febrúar í fyrra.
„Sala félagsins jókst verulega eftir að faraldurinn braust út, þar sem ýmsar samkomutakmarkanir gerðu það að verkum að verslun færðist í stórauknum mæli á netið. Í uppgjöri fjórða ársfjórðungs ársins 2019 lögðum við fram spá um vöxt félagsins næstu árin. Þar gerðum við ráð fyrir 15-20% árlegum tekjuvexti næstu 3-5 árin. Vöxturinn varð hins vegar mun meiri. Það má því segja að við höfum gengið í gegnum fimm ára vöxt á tveimur árum."