Tekjur Dineout, sem heldur úti heildstæðum hugbúnaðarlausnum fyrir veitingastaði og hótel, hafa þrefaldast á undanförnu ári þrátt fyrir að starfa helst í veitingabransanum í miðjum faraldri. Um 140 veitingastaðir á Íslandi hafa tekið upp lausnir Dineout. Í júní síðastliðnum voru lagðar inn um 73 þúsund bókanir í gegnum Dineout kerfið, en til samanburðar var fjöldinn tæplega 30 þúsund á mánuði í byrjun árs 2020.
Viðskiptablaðið sagði frá því í vikunni að miðsölufyrirtækið Tix hefði nýlega fjárfest í Dineout. Inga Tinna Sigurðardóttir, forstjóri og einn stofnenda Dineout, segir að samstarfið muni hjálpa fyrirtækinu í útrás sinni á erlenda markaði.
Sjá einnig: Fjárfesting Tix stökkpallur fyrir útrás
Fyrirtækið heldur úti vefsíðunni dineout.is sem fær um 80 þúsund heimsóknir á mánuði. Þar geta notendur pantað borð eða mat á öllum helstu veitingastöðum landsins ásamt möguleikanum á að bóka sig á viðburði tengdum veitingastöðum. Einnig geta notendur nú pantað veisluþjónustu í gegnum forritið. Fyrirtækið hleypti af stokkunum smáforritinu Dineout Iceland fyrir nokkrum mánuðum sem er strax komið með yfir 15 þúsund notendur. Nýjasta viðbótin er svo vefsíðan dineout.restaurant sem sýnir allar hugbúnaðarlausnir sem fyrirtækið býður upp á.
Markmið Dineout, sem var stofnað árið 2017, er að bjóða upp á heildarlausnir fyrir veitingahús, tónleikahallir og bíóhús. Þá þurfa viðskiptavinir aðeins eitt kerfi til að sjá um borðabókanir og matarpantanir líkt og „takeaway“ eða heimsendingar. Nýjasta afurð fyrirtækisins er kassakerfi (POS) sem hefur verið í þróun síðan á síðasta ári. Þá býður Dineout einnig viðskiptavinum sínum upp á vefsíðugerð. Með þessari 360 gráðu lausn flæða allar upplýsingar og breytingar í gegnum öll kerfi sem sparar tíma, einfaldar skipulag og starfsfólk þarf aðeins að læra á eitt kerfi.
Bylting í hótelbransanum
Á síðasta ári þróaði Dineout hugbúnað fyrir herbergisþjónustu á hótelum þar sem hótelgestir geta skannað inn QR kóða og pantað mat upp á herbergi. Lausnin var fyrst tekin í notkun á Hilton Reykjavík Nordica fyrir hálfu ári síðan en í kjölfarið hafa fleiri hótel á borð við Grand hótel og Centerhotels tekið lausnina í notkun.
„Þessi lausn þekkist ekki erlendis ennþá en hefur slegið þvílíkt í gegn hérna heima. Bæði eru þetta mikil þægindi fyrir hótelgesti en einnig sparar þetta hótelunum mikla vinnu og skriffinnsku," segir Inga Tinna.
Hún segir að þetta hafi reynst Nordica þvílíkt vel þegar hótelið fylltist í byrjun sumars af keppendum á rafíþróttamóti sem þurftu allir að fara í fimm daga sóttkví og sem leiddi til mikils álags á herbergisþjónustunni. Hefði ekki verið fyrir QR lausnina þá hefði hótelið líklega þurft auka mannskap bara til að sinna borðpöntunum
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .