Dropp ehf., sem býður upp á afhendingu á vörum netverslana, velti 535 milljónum króna árið 2023 samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Það samsvarar 90% aukningu frá fyrra ári.

Rekstrarafkoma Dropp fyrir afskriftir (EBITDA) batnaði milli ára og var neikvæð um 22 milljónir í fyrra samanborið við EBITDA-tap upp á 121 milljón árið 2022. Dropp tapaði 38 milljónum eftir skatta í fyrra.

Dropp byrjaði að afhenda vörur fyrir netverslanir árið 2019 og er í dag með yfir hundrað afhendingarstaði um allt land auk þess að bjóða upp á heimsendingar á stórhöfuðborgarsvæðinu. Félagið hreppti efsta sætið í Íslensku ánægjuvoginni 2023.

Í byrjun sumars gekk Dropp frá kaupum á 75% hlut í Górillu vöruhúsi, sem sérhæfir sig í vöruhýsingu, afhendingu og dreifingu á vörum fyrir netverslanir og heildsölur. Félögin verða rekin hvort í sínu lagi fyrst um sinn en í kjölfarið verður unnið að því að samþætta reksturinn.

Lykiltölur / Dropp ehf.

2023 2022
Rekstrartekjur 535 281
Rekstrargjöld 558 403
EBITDA -23 -121
Afkoma e. skatta -38 -112
Eignir 416 389
Eigið fé 287 323
Ársverk 28 24
- í milljónum króna.

Eignir Dropp voru bókfærðar á 416 milljónir króna í lok síðasta árs og eigið fé var um 288 milljónir.

Festi, móðurfélag Krónunnar, Lyfju, N1 og Elko, er stærsti hluthafi Dropp með 30,9% hlut. Sænska netverslunin Boozt, sem Hermann Haraldsson stýrir, er næst stærsti hluthafinn með 23,5% hlut.

Hluthafar Dropp í árslok 2023

Hluthafi Eignarhlutur
Festi hf. 30,9%
Boozt AB 23,5%
Tennin ehf. 12,9%
HAKK ehf. 9,4%
Order ehf. 9,4%
RE22 ehf. 6,5%
Hreinn Gústavsson 3,5%
Hrólfur Andri Tómasson 2,5%
H2 Invest ehf. 0,7%
Jón Björnsson 0,7%