Tekjur Friðheima jukust um 91% árið 2021 og námu 747 milljónum króna, samanborið við 390 milljónir árið 2020. Tekjuaukningin leiddi til 22 milljón króna hagnaðar samanborið við 67 milljóna króna tap árið áður. Félagið hefur aldrei verið með meiri veltu en árið 2021.

Friðheimar er með vinsælli áfangastöðum ferðamanna á Suðurlandi, en þar eru ræktaðir tómatar allan ársins hring. Auk þess er veitingastaður í Friðheimum þar sem tómatarnir eru aðalþema matseðilsins. Þar er einnig stunduð hrossarækt og ferðamönnum boðið upp á hestasýningu á fjórtán tungumálum. 

Félagið hefur skilað hagnaði öll rekstraár félagsins fyrir utan árið 2020, þegar ferðaþjónustunni var skellt í lás vegna kórónuveirufaraldursins.

Af 747 milljón króna veltu félagsins komu ríflega 377 milljónir í gegnum garðrækt en 351 milljónir í gegnum ferðaþjónustu. Þá námu aðrar tekjur félagsins 19 milljónum. Tekjur af garðrækt tvöfölduðust milli ára og jukust um 150% frá árinu 2019. Tekjur af ferðaþjónustu jukust um 75% milli ára en voru 25% minni en árið 2019.

Eignir félagsins námu 632 milljónum í lok árs. Eigið fé nam 67 milljónum í árslok.

Hjónin Knútur Rafn Ármannsson, búfræðingur frá Hólum, og Helena Hermundardóttir, garðyrkjufræðingur frá Reykjum, eru eigendur Friðheima. Þau búa í Friðheimum ásamt fimm börnum sínum.