Fasteignafélagið Kaldalón hagnaðist um 3.231 milljón króna árið 2024, samanborið við 3.131 milljón króna hagnað árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 4,3 milljörðum króna. Tekjur samstæðunnar námu 4,5 milljörðum króna og jukust um 40% milli ára og matsbreyting fasteigna nam 4 milljörðum, samanborið við 3,8 milljarða árið 2023. Arðsemi eiginfjár var 14% á ársgrundvelli og rekstrarhagnaðarhlutfall 79%.
Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins fyrir árið 2024. Virði fasteignasafns félagsins var metið á 72,6 milljarða króna í árslok 2024, samanborið við 57,2 milljarða árið áður. Samstæðan átti í lok árs 127.000 m2 af fasteignum til útleigu ásamt fasteignum í byggingu.
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns, segir í uppgjörstilkynningu að rekstur og uppbygging félagsins sé í samræmi við stefnu og áætlanir sem kynntar hafa verið fjárfestum undanfarin ár. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu hækki um 43% milli ára, þrátt fyrir kostnað sem féll til vegna viðskipta sem ekki varð af á fyrri hluta árs.
„Kaldalón fjárfesti 11,6 milljörðum í uppbyggingu eigna á árinu, nýjum eignum og eignasöfnum í samræmi við stefnu. Tekjuaukning félagsins á árinu 2024, kemur til vegna fjárfestinga fyrra árs sem eru nú tekjuberandi allt árið. Að sama skapi eru fjárfestingar ársins 2024 helstar á síðasta fjórðungi ársins, og verða því tekjuberandi árið 2025,“ segir Jón Þór en Kaldalón leggi höfuðáherslu á arðsemi og hagkvæmni í sinni starfsemi.
„Á fyrri hluta ársins var augljóst ójafnvægi verðlagningar atvinnueigna á almennum markaði og skráðum fasteignafélögum. Það reyndist því erfitt að fjárfesta í fasteignum í samræmi við arðsemisvæntingar hluthafa, og því er ánægjulegt að ná vaxtarmarkmiðum. Stjórnendur Kaldalóns meta nú markaðsaðstæður betri og tækifæri til að gera viðskipti sem eru arðbær til langs tíma.“
Eitt af meginmmarkmiðum félagsins sé að vera reglulegur og þekktur útgefandi á skuldabréfamarkaði en á árinu gaf félagið út tvo verðtryggða skuldabréfaflokka auk víxla.
„Samhliða aukinni markaðsfjármögnunar nýtir félagið bankafjármögnun til skuldastýringar og fjármögnunar. Svo verður áfram. Á skuldahlið efnahagsreiknings félagsins eru umtalsverð tækifæri til endurfjármögnunar. Vaxtakostnaður félagsins væri tæpum þriðjungi lægri ef allar uppgreiðanlegar skuldir félagsins væru á meðalfjármögnunarkjörum markaðsskuldabréfa þess, eða sem nemur um 800 m.kr. á ársgrundvelli,“ segir Jón Þór.
„Árangur og afkoma ársins er góð. Vaxtaumhverfi undanfarinna ára hefur óneitanlega sett mark sitt á starfsumhverfi félagsins. Ég tel langtímahorfur Kaldalóns góðar. Við munum því halda áfram að vinna eftir stefnumörkun félagsins og mæta þörfum íslensks atvinnulífs með stækkandi eignasafni.“
Eignir samstæðunnar námu 75,8 milljörðum króna og jukust um 15,2 milljarða milli ára en eigið fé nam 25,9 milljörðum og jókst um 2,7 milljarða.
Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur arður á árinu 2025 þar sem félagið er í vaxtarfasa. Stefnt er á að hefja arðgreiðslur árið 2026, eða þegar verðmæti fjárfestingareigna nemur 100 milljörðum króna eða leigutekjur verða 8 milljarðar eða meira á ársgrundvelli.
Félagið gerir ráð fyrir að rekstrartekjur á árinu 2025 verði á bilinu 5.350-5.550 milljónum króna og að rekstrarhagnaður ársins nemi 4.200-4.350 milljónum.
Gerir spáin ráð fyrir 3,5% hækkun verðlags milil ára og sambærilegu nýtingarhlutfalli. Í spánni er ekki gert ráð fyrir tekjum af nýjum fjárfestingum á árinu 2025 og koma slíkar fyrirhugaðar fjárfestingar því til viðbótar.