Rekstrartekjur Miklaborgar, einnar stærstu fasteignasölu landsins, drógust saman um 32,8% milli áranna 2022 og 2023 og námu 691 milljón í fyrra.

Rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins lækkaði úr 360 milljónum í 84 milljónir milli ára.

„Grunnrekstur félagsins gekk vel á árinu þrátt fyrir erfitt árferði. Haustið 2023 fór fasteignamarkaður að taka aftur við sér eftir langa niðursveiflu. Þessi þróun hélt áfram á fyrsta ársfjórðungi 2024 en samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun voru kaupsamningar á landinu 29% fleiri miðað við sama tíma í fyrra,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins sem var undirritaður í lok maí sl.

„Söluaukning hjá Fasteignasölunni Miklaborg fyrstu þrjá mánuði ársins var umfram markaðsmeðaltal og er staða félagsins markaði stöðug og traust og verkefnastaðan góð.“

Hagnaðist um 30 milljónir

Fasteignasalan Miklaborg ehf. hagnaðist um 30 milljónir eftir skatta í fyrra samanborið við 208 milljóna tap árið 2022. Félagið hyggst ekki greiða út arð vegna síðasta rekstrarárs.

Bætt afkoma eftir skatta skýrist af því að afkoma af verðbréfaeign félagsins var jákvæð um 45 milljónir í fyrra en neikvæð um 610 milljónir árið 2022. Eignarhlutir félagsins í öðrum félögum námu 809 milljónum króna í árslok 2023.

Eignir Fasteignasölunnar Mikluborgar voru bókfærðar á 1.993 milljónir króna í árslok 2023. Eigið fé var um 938 milljónir.

Fasteignasalan Miklaborg er í 52,5% eigu Óskars R. Harðarsonar og 47,5% eigu Jasonar Guðmundssonar.

Lykiltölur / Fasteignasalan Miklaborg ehf.

2023 2022
Rekstrartekjur 691 1.028
Rekstrarhagnaður 84 360
Afkoma af verðbréfaeign 45 -610
Afkoma e. skatta 30 -208
Eignir 1.993 1.846
Eigið fé 938 923
Ársverk 13 12
– í milljónum króna