Tekjur Síldarvinnslunnar á Neskaupstað á fyrsta ársfjórðungi þessa árs námu tæplega 13 milljörðum króna og jukust um 92% frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður nam 3,5 milljörðum króna sem er níu prósenta aukning frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri Síldarvinnslunnar.

Hagnaður fyrir vaxtaliði, skatta, afskriftir og niðurfærslur var 4,2 milljarðar króna og EBITDA hlutfallið 32,3%. Í lok tímabilsins námu eignir 86 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var 67%.

Í tilkynningu með uppgjörinu kemur fram að veiðar og vinnsla á loðnu hafi gengið vel en ekki hafi náðst að veiða allan kvótann vegna erfiðra veðurskilyrða. Markaðsskilyrði hafi verið hagstæð fyrir flestar afurðir fyrirtækisins og framleiðsla verið mikil. Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir að verð fyrir framleiðsluvörur félagsins séu víða í sögulegu hámarki, sérstaklega verð á sjófrystum afurðum ásamt mjöl- og lýsisafurðum. Þrátt fyrir mikla óvissu í heimshagkerfinu er hann bjartsýnn.

„Ýmsar blikur eru á lofti í heimsmálunum, vextir eru hækkandi í heiminum, flestir kostnaðarliðir að hækka mikið. Þrýstingur verður væntanlega á íslensku krónuna. Vegna þessa þurfum við að halda vel á spilunum. Við erum engu að síður bjartsýn með komandi mánuði.“