Arnarlax, dótturfélag Icelandic Salmon, skilaði tapi á öðrum ársfjórðungi 2025 en félagið segir háan kostnað og aukin afföll hafa sett mark sitt á reksturinn. Tekjur jukust þó verulega milli ára og félagið á von á betri afkomu þegar ný kynslóð laxa kemur inn í framleiðslu á haustmánuðum.
Samkvæmt uppgjöri félagsins námu tekjur á fjórðungnum 25 milljónum evra, sem er rúmlega tvöföldun frá sama tíma í fyrra þegar tekjurnar voru 9,7 milljónir evra.
Rekstrartapið (EBIT) nam 8,3 milljónum evra, samanborið við 3,8 milljónir evra í fyrra.
Tap á hvert kíló af laxi var 2,09 evrur, en til samanburðar var tapið 5,37 evrur á kíló árið áður. Slátrað magn nam 4.000 tonnum á fjórðungnum, sem er fimmföld aukning frá fyrra ári, en lægra markaðsverð og afföll í 2023-kynslóðinni drógu úr arðsemi.
Lægra verð og óvissa vegna tolla
Heildareignir félagsins námu 264 milljónum evra í lok fjórðungs en eiginfjárhlutfall lækkaði úr 55% í 47%.
Nettóvaxtaberandi skuldir hækkuðu í 113 milljónir evra, meðal annars vegna aukinna birgða og nýrra leigusamninga upp á sex milljónir evra. Arnarlax hefur einnig fjárfest í aukinni framleiðslugetu, meðal annars við Laxabraut.

© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)
Alþjóðlegt framboð á laxi hefur aukist og hefur það valdið þrýstingi á verðin.
Meðalverð á 3–6 kg laxi frá Arnarlax lækkaði um 2,55 evrur á kíló frá sama tímabili í fyrra.
Þá ríkir enn óvissa um áhrif 15% útflutningstolls til Bandaríkjanna, en 12% af heildarmagni félagsins fer á þann markað.
Arnarlax hefur lækkað framleiðsluáætlun fyrir árið 2025 úr 15.000 tonnum í 13.000 tonn vegna aukinna affalla og hraðari slátrunar á 2023-kynslóðinni.
Fyrsta slátrun nýrrar kynslóðar er áætluð í október og búist er við að lífmassi verði verulega hærri í árslok en hann var í fyrra.
Félagið segir áframhaldandi óvissu á markaði, bæði vegna tolla og aukins framboðs.