Tekjur Meta, móðurfélags Facebook, á öðrum ársfjórðungi námu 28,8 milljörðum dala, sem er um 1% samdráttur frá sama tímabili í fyrra. Um er að ræða í fyrsta sinn í sögu félagsins sem tekjur þess dragast saman á milli ára. Þá lækkaði meðalverð á auglýsingum hjá Meta um 14% á fjórðungnum vegna minni eftirspurnar. WSJ greinir frá.

Meta varaði fjárfesta við því að auglýsingastarfsemi félagsins standi áfram frammi fyrir efriðleikum vegna breytinga Apple á stýrikerfi Iphone símanna.

„Við virðumst vera komin í efnahagslægð sem mun hafa víðtæk áhrif á stafræna auglýsingaiðnaðinn,“ sagði Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, á uppgjörsfundi Meta í dag.

Hagnaður Meta nam 6,7 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi sem er um þriðjungi minna en á sama tíma í fyrra. Þetta er þriðji fjórðungurinn í röð þar sem afkoma félagsins dregst saman frá fyrra ári.

Hlutabréf Meta hækkuðu um 6% fyrir uppgjörið í gær en hafa fallið aftur um 6% í fyrstu viðskiptum í dag.