Tekjur Alphabet, móðurfélags Google, námu 69,7 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi sem er 13% aukning frá sama tíma í fyrra. Tekjuvöxtur netrisans hefur ekki verið minni í tvö ár. Alphabet sagði þó að leitarvéla- og skýjaþjónusta sín hafi gengið vel þrátt fyrir mótbyr í hagkerfinu. Financial Times greinir frá.

Fjármálastjóri Alphabet, Ruth Porat, sagði rekstrarniðurstöðuna hafa verið góða og að þegar niðurstaðan er leiðrétt fyrir gengishreyfingum hafi tekjur aukist um 16% á milli ára. Þá megi minni tekjuvöxt rekja að hluta til 62% tekjuaukningu á öðrum fjórðungi 2021 þegar Google naut góðs af aukinni fjarvinnu í Covid-faraldrinum.

Rekstrarhagnaðarhlutfall (e. operating margin) nam 28% á ársfjórðungnum en sama hlutfall var 31% fyrir ári síðan. Þá dróst hagnaður eftir skatta saman um 13,6% á milli ára, úr 18,5 milljörðum dala í 16,0 milljarða dala.

Hlutabréf Alphabet hafa hækkað um 4% í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag en ýmsir fjárfestar áttu von á slakri niðurstöðu vegna stöðu hagkerfisins og nýlegum uppgjörum annarra tæknifyrirtækja á borð við Snap.