Hagfræðingar telja 70% líkur á að hagvöxtur verði neikvæður í Bandaríkjunum á næsta ári samkvæmt mánaðarlegri skoðanakönnun Bloomberg. 38 hagfræðingar tóku þátt í könnuninni sem var framkvæmd dagana 12.-16. desember.
Til samanburðar töldu 65% svaranda í könnun Bloomberg í október líkur á samdrætti á landsframleiðslu Bandaríkjanna. Hlutfallið hefur meira en tvöfaldast á hálfu ári.
Hagfræðingarnir spá því að miðgildi að verg landsframleiðsla í Bandaríkjunum aukist um 0,3% á næsta ári. Spáin felur í sér að landsframleiðsla á ársgrundvelli dragist saman um 0,7% á öðrum ársfjórðungi.
„Bandaríska hagkerfið stendur frammi fyrir mótvindi vegna hækkandi vöxtum, hárri verðbólgu og þar sem fjárhagslegar stuðningsaðgerðir eru að renna sitt skeið, ásamt veikum útflutningsmörkuðum erlendis,“ er haft eftir aðalhagfræðingi Comerica Bank. Hann bætti við að fyrirtæki séu hikandi við að bæta við sig birgðum og hafa dregið úr ráðningum.
Fundur Seðlabanka Bandaríkjanna í síðustu viku hefur einnig leitt til væntinga um að vextir verði hækkaðir meira en áður var gert ráð fyrir.