Heims­markaðs­verð á olíu hefur hækkað til muna síðast­liðnar vikur og hefur verðið ekki verið hærra í þrjá mánuði. Olíu­tunna af Brent hrá­olíu stendur nú í 83 dölum, sem er 12% hækkun sl. mánuð.

Sádi Arabía á­kvað fyrr í sumar að draga veru­lega úr olíu­fram­leiðslu sinni í von um að ná verðinu upp. Verðið hækkaði þó ekki eins og vonir Sáda stóðu til þar sem fjár­festar höfðu meiri á­hyggjur af efna­hags­á­standi heimsins fremur en fram­leiðslunni.

Nú þegar verð­bólga hefur tekið að hjaðna og seðla­bankar víða um heim eru lík­legir til að hægja á stýri­vaxta­hækkunum hefur olíu­verðið rokið upp.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal telja greiningar­aðilar tunnan af brent hrá­olíu gæti farið yfir 100 dali en tunnan hefur verið að seljast í fram­virkum samningnum öðru hvoru megin við 80 dali á árinu.

Talið er að ef tunnan hækki mikið meira úr þessu muni neyt­endur sjá hækkanir á bensín­dælunni.