Eftir að sýrlenski einræðisherrann Bashar al-Assad féll frá völdum hófst alþjóðleg samvinna um að finna og endurheimta milljarða Bandaríkjadala í reiðufé og eignum sem Assad-fjölskyldan sankaði að sér á 53 ára valdatíma sínum.
Sama var gert eftir fall einræðisherranna Saddam Husseins í Írak og Moammar Gadhafi í Líbíu.
Talið er að auðæfi Assad-fjölskyldunnar séu falin í mörgum eignaflokkum um allan heim, þar á meðal fasteignum, bankareikningum og fjárfestingum í skráðum og óskráðum eignum.
Áskorunin við að rekja þessar eignir felst í flóknu neti skúffufyrirtækja og milliliða sem notaðir hafa verið til að leyna eignarhaldinu sem gerir endurheimtur bæði flókna og tímafreka.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2022 segir að eignir Assad fjölskyldunnar næmu minnst einum milljarði Bandaríkjadala og líklega mest 12 milljörðum dala, eða 140-1.680 milljörðum króna. Ráðuneytið telur þó algjöra óvissu ríkja um fjárhæðina.
Alþjóðabankinn áætlaði árið 2022 að 70% Sýrlendinga lifi við fátækt, en borgarastríðið hófst árið 2011. Ástandið hefur vart skánað síðan.
Alþjóðleg yfirvöld vinna saman að því að rekja þessar eignir með það að markmiði að endurheimta og nota það í enduruppbyggingu í Sýrlandi. Árangur þessara aðgerða veltur á samvinnu þeirra landa þar sem eignirnar eru taldar vera staðsettar. Hins vegar er gert ráð fyrir að ferlið verði bæði langt og fullt af lagalegum og diplómatískum hindrunum.