Fall einræðisherrans Bashar al-Assads í Sýrlandi kollvarpaði arðbærustu eiturlyfjahring Miðausturlanda og afhjúpaði hlutverk fyrrverandi stjórnar hans í framleiðslu og dreifingu á eiturlyfjunum. Wall Street Journal fjallaði um málið í dag.

Captagon, ein tegund metamfetamíns, hefur verið framleitt í sýrlenskum verksmiðjum um árabil. Framleiðslan hjálpaði Assad að safna gífurlegum auði og vega upp á móti áhrifum alþjóðlegra refsiaðgerða.

Jafnframt gerði það bandamönnum eins og hryðjuverkamönnunum í Hizbollah í Líbanon kleift að afla sér gríðarlegra tekna í viðskiptum með eiturlyfið.

Fyrst framleitt í Þýskalandi

Captagon var upphaflega framleitt frá árinu 1961 af þýska lyfjafyrirtækinu Degussa sem lyf við ADHD og drómasýki. Það inniheldur fenetýlín sem er örvandi en hefur mildari áhrif en metamfetamín.

Upp úr 1980 var Captagon bannað í flestum löndum vegna þess hve ávanabindandi það er og vegna skaðlegra áhrifa þess eru á heilsu fólks.

Captagon er afar vinsælt í Miðausturlöndum, sérstaklega í Sádi-Arabíu, Kúveit, Írak og Jórdaníu. Lyfið er kallað „fátækrametamfetamín“ vegna þess að það er ódýrara en önnur örvandi efni. Það er mikið notað af hermönnum og vígasamtökum. Það gefur neytandanum hugrekki, þol og orku til að berjast í langan tíma án svefns eða matar.

Ítalska lögreglan lagði hald á 14 tonn af captagon árið 2020 sem flutt hafði verið til Ítalíu frá Sýrlandi.
© epa (epa)

Framleiðslan undir stjórn embættismanna

Dagana eftir að uppreisnarmenn steyptu Assad af stóli á örfáum dögum í síðustu viku birtu þeir myndskeið frá iðnaðarframleiðslu- og smyglstöðvum innan herflugvalla og annarra staða sem voru undir stjórn fyrrverandi embættismanna ríkisstjórnarinnar Assad.

Meðal þeirra staða þar sem uppreisnarmenn fundu Captagon-verksmiðjur og geymslur voru Mazzeh-herflugvöllurinn í Damaskus, bílasala í heimabæ Assad-fjölskyldunnar í Latakia og gömul verksmiðja í Douma nálægt höfuðborginni sem talin er tengjast bróður fyrrverandi forsetans.

Myndefni, sem uppreisnarmenn og fréttamenn sýndu – þar á meðal frá Reuters – sýndu þúsundir Captagon-pilla faldar í gerviávöxtum, gólfflísum og raftækjum. Uppreisnarmenn segjast hafa eyðilagt að minnsta kosti hluta af þeim Captagon birgðum sem fundust.

Gögnin sanna aðkomu Assad

Gögnin veita sannanir fyrir því sem lengi hefur verið haldið fram. Að Assad-stjórnin hafi verið drifkrafturinn á bak við alþjóðlegan markað með captagon. Er áætlað að veltan með eiturlyfið hafi numið um 10 milljörðum Bandaríkjadala árlega, um 1.380 milljörðum króna.

„Þetta sannar algjörlega að stjórnin var kerfisbundið þátttakandi í framleiðslu og smygli á captagon,“ sagði Caroline Rose, sérfræðingur hjá New Lines Institute, hugveitu í Washington. „Þeir gátu byggt upp þessi framleiðslumannvirki eins stór og þeir vildu og tengt þau við alla þætti kerfisins.“

Þó captagon hafi lengi verið framleitt í smærri verksmiðjum víða um Sýrland – þrátt ítrekaða neitun sýrlenskra yfirvalda – þá sýnir stærð og umfang nýafhjúpaðra verksmiðja hinn gríðarlega skala viðskiptanna og að þátttaka stjórnvalda var nær á öllum stigum framleiðslunnar.

„Þú getur rétt ímyndað þér mannafla og auðlindir sem þurfti til,“ sagði Rose. „Þetta sýnir hversu mikil fjárfesting var lögð í þessa ólöglegu starfsemi. Hún smitaði út frá sér í marga þætti stjórnkerfisins: pólitíkina, valdastrúktúrinn og löggæslu og her.”