Samkvæmt ítarlegri umfjöllun Telegraph um Icelandair gæti efnahagsstefna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta haft jákvæð áhrif á vaxtarstefnu flugfélagsins.
Gert er ráð fyrir að bandaríska hagkerfið muni halda áfram að vaxa á næstu árum, talsvert umfram það evrópska.
Mikilvægur þáttur í vaxtarstefnu Icelandair er innleiðing nýrra Airbus A321 LR og XLR-flugvéla sem eru með mun meiri drægni en 757 vélarnar frá Boeing sem félagið hefur byggt sinn rekstur á í langan tíma.
Þannig opna vélarnar á fleiri flugleiðir til Bandaríkjanna, bæði til suðurs og vesturs.
Icelandair spilar einnig lykilhlutverk í flugi til Grænlands, sem hefur orðið sífellt vinsælli áfangastaður fyrir bandaríska ferðamenn. Vísbendingar eru um að mikill áhugi Bandaríkjaforseta á Grænlandi hafi aukið áhuga Bandaríkjamanna á landinu.
Í frétt Telegraph er rakið hvernig Icelandair ætlar að styrkja stöðu sína á Norður-Atlantshafsmarkaði með útvíkkuðu leiðakerfi og nýta sér áframhaldandi hagvöxt í Bandaríkjunum.
Icelandair hefur nýlega tilkynnt um reglulegar ferðir til Miami í Flórída, sem varð nítjándi áfangastaður félagsins í Norður-Ameríku. Meðal annarra áfangastaða sem félagið stefnir á að bæta við í leiðakerfið á næstu árum eru Los Angeles og San Francisco í Kaliforníu og Austin í Texas.
Áform félagsins fela einnig í sér mögulegar ferðir til Mexíkó, sérstaklega til vinsælla ferðamannastaða eins og Cancun, auk flugleiða til borga í Miðausturlöndum og jafnvel Asíu. Hins vegar er eitt vinsælasta ferðamannasvæði Bandaríkjanna, Hawaii, enn utan seilingar – nema að viðbótareldsneytistankar yrðu settir í nýju vélarnar.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir í samtali við Telegraph að félagið hafi töluvert samkeppnisforskot vegna þess að það getur nýtt minni og sparneytnari þotur sem draga lengra en eldri vélar.
Þannig geti Icelandair boðið farþegum lægra verð en stærri flugfélög á borð við British Airways og American Airlines.
„Við erum í miðju Atlantshafinu og getum flogið minni þotum lengra inn í Norður-Ameríku en evrópsku flugfélögin og lengra inn í Evrópu en bandarísku félögin,“ segir Bogi.
Ferðamannaiðnaðurinn knýr áfram hagvöxt
Telegraph rekur einnig hvernig ferðaþjónustan er nú orðin stærsta útflutningsgrein Íslands og hefur tekið fram úr bæði sjávarútvegi og álframleiðslu.
Um 35% af farþegum Icelandair í fyrra voru erlendir ferðamenn sem komu til landsins, en af þeim 50% sem flugu yfir Atlantshafið með félaginu, völdu um 20% að dvelja á Íslandi í nokkra daga í millilendingu.