Sam­kvæmt ítar­legri um­fjöllun Telegraph um Icelandair gæti efnahagsstefna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta haft jákvæð áhrif á vaxtarstefnu flugfélagsins.

Gert er ráð fyrir að bandaríska hagkerfið muni halda áfram að vaxa á næstu árum, talsvert umfram það evrópska.

Mikilvægur þáttur í vaxtar­stefnu Icelandair er inn­leiðing nýrra Air­bus A321 LR og XLR-flug­véla sem eru með mun meiri drægni en 757 vélarnar frá Boeing sem félagið hefur byggt sinn rekstur á í langan tíma.

Þannig opna vélarnar á fleiri flugleiðir til Bandaríkjanna, bæði til suðurs og vesturs.

Icelandair spilar einnig lykil­hlut­verk í flugi til Græn­lands, sem hefur orðið sí­fellt vinsælli áfangastaður fyrir bandaríska ferða­menn. Vísbendingar eru um að mikill áhugi Bandaríkja­for­seta á Græn­landi hafi aukið áhuga Bandaríkja­manna á landinu.

Í frétt Telegraph er rakið hvernig Icelandair ætlar að styrkja stöðu sína á Norður-Atlantshafsmarkaði með út­víkkuðu leiða­kerfi og nýta sér áframhaldandi hag­vöxt í Bandaríkjunum.

Icelandair hefur nýlega tilkynnt um reglulegar ferðir til Miami í Flórída, sem varð nítjándi áfangastaður félagsins í Norður-Ameríku. Meðal annarra áfangastaða sem félagið stefnir á að bæta við í leiðakerfið á næstu árum eru Los Angeles og San Francisco í Kaliforníu og Austin í Texas.

Áform félagsins fela einnig í sér mögu­legar ferðir til Mexíkó, sér­stak­lega til vinsælla ferða­mannastaða eins og Cancun, auk flug­leiða til borga í Miðaustur­löndum og jafn­vel Asíu. Hins vegar er eitt vinsælasta ferða­manna­svæði Bandaríkjanna, Hawa­ii, enn utan seilingar – nema að viðbótar­elds­neytistankar yrðu settir í nýju vélarnar.

Bogi Nils Boga­son for­stjóri Icelandair segir í sam­tali við Telegraph að félagið hafi tölu­vert sam­keppnis­for­skot vegna þess að það getur nýtt minni og sparneytnari þotur sem draga lengra en eldri vélar.

Þannig geti Icelandair boðið farþegum lægra verð en stærri flug­félög á borð við British Airwa­ys og American Air­lines.

„Við erum í miðju At­lants­hafinu og getum flogið minni þotum lengra inn í Norður-Ameríku en evrópsku flug­félögin og lengra inn í Evrópu en bandarísku félögin,“ segir Bogi.

Ferða­manna­iðnaðurinn knýr áfram hag­vöxt

Telegraph rekur einnig hvernig ferðaþjónustan er nú orðin stærsta út­flutnings­grein Ís­lands og hefur tekið fram úr bæði sjávarút­vegi og ál­fram­leiðslu.

Um 35% af farþegum Icelandair í fyrra voru er­lendir ferða­menn sem komu til landsins, en af þeim 50% sem flugu yfir At­lants­hafið með félaginu, völdu um 20% að dvelja á Ís­landi í nokkra daga í milli­lendingu.