Vísir ehf., dóttur­fé­lag Síldar­vinnslunnar hf., sem er með starf­semi sína í Grinda­vík, hefur unnið að því að undir­búa og inn­leiða varnir og á­ætlanir til sam­ræmis við þær sviðs­myndir sem al­manna­varnir og jarð­vísinda­menn höfðu sett fram í tengslum við jarð­hræringar á Reykja­nesi. Vörðuðu þær flestar á­hrif tjóns á inn­viðum utan Grinda­víkur, s. s. á raf­orku­ver og hita­veitu.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Gunn­þóri Ingva­syni for­stjóra Síldar­vinnslunnar.

Sam­kvæmt til­kynningunni vörðuðu flestar sviðs­myndir al­manna­varna um tjón á á inn­viðum utan Grinda­víkur, s. s. á raf­orku­ver og hita­veitu.

„Leggja áherslu á að hlúa að starfsfólki“

„Ljóst er að þróunin undan­farna sólar­hringa hefur verið önnur og verri gagn­vart byggð í Grinda­vík en þær sviðs­myndir gerðu ráð fyrir. Staða mála hefur ekki á­hrif á starf­semi út­gerðar en fisk­vinnsla í Grinda­vík hefur stöðvast. Stjórn­endur vinna við að bregðast við að­stæðum og munu taka á­kvarðanir í sam­ræmi við þróun mála,“ segir í til­kynningu.

„Stjórn­endur hafa yfir­farið stöðu fé­lagsins út frá vá­tryggingar­vernd og telja fast­eignir og lausa­fé fé­lagsins í Grinda­vík vera vel tryggt í sam­ræmi við lög vegna hugsan­legs tjóns af völdum jarð­hræringanna. Starfs­menn og stjórn­endur vinna að því að verja verð­mæti sem bundin eru í hrá­efnis- og af­urða­birgðum í sam­ráði og sam­vinnu við yfir­völd. Stjórn­endur leggja á­herslu á að hlúa að starfs­fólki og halda sam­bandi við það,“ segir þar enn fremur.