Lögreglan í New York telur að morðið á Brian Thompson forstjóra UnitedHealth í gær hafi verið þaulskipulagt. Hins vegar hefur lögreglan ekki komist að því hver er ástæða morðsins.
Mikil leit stendur yfir á morðingjanum og hafa verið fest upp plaköt um alla miðborg Manhattan þar sem boðnir eru fram 10 þúsund dalir, um 1,4 milljónir króna, fyrir upplýsingar um ódæðismanninn.
Andrúmsloftið og árásin
Wall Street Journal lýsir í frétt atburðarrásinni í gær. Árlegur fjárfestadagur UnitedHealth Group var haldinn í gærmorgun. Boðið var upp á morgunmat og um klukkan átta hóf hópur fjárfesta, stjórnenda og greiningaraðila frá Wall Street að safnast saman í sal á þriðju hæð Hilton-hótelsins í Midtown Manhattan til að hlýða á kynningar um framtíð fyrirtækisins, sem er stærsta sjúkratryggingafyrirtæki Bandaríkjanna.
Þá vissu viðstaddir ekki að einn af helstu stjórnendum fyrirtækisins hafði verið myrtur fyrr um morguninn fyrir utan hótelið í árás sem lögreglan segir hafa verið þaulskipulagða.
Brian Thompson forstjóri UnitedHealthcare var skammt frá aðalinngangi Hilton hótelsins klukkan 6:44 í gærmorgun þegar árásarmaðurinn, klæddur í dökka hettupeysu og með gráa bakpoka, fylgdi Thompson rólega eftir í nokkur skref áður en hann skaut hann með 9 mm skammbyssu. Árásarmaðurinn flúði í gegnum sund og hvarf á reiðhjóli, að sögn lögreglu.
Það var ekki fyrr en um klukkan 9 leytið sem Andrew Witty, forstjóri UnitedHealth Group, móðurfyrirtækis UnitedHealthcare, aflýsti fundinum „mjög alvarlegs ástands hjá einum úr okkar teymi. Ég er viss um að þið skiljið það.“
Upplýsingar um skotárásina höfðu þá þegar farið um salinn eins og eldur í sinu. Thompson var úrskurðaður látinn klukkan 7:12.
Innan við klukkustund síðar voru margir gestanna komnir í anddyri Hilton-hótelsins að skrá sig út af hótelinu.