Forstjóri og stjórnarformaður Sýnar telja skynsamlegast að fella niður alla styrki til einkarekinna fréttamiðla, samhliða því að Ríkisútvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði og látið aðlaga sig að framlagi ríkisins.

„Að óbreyttu er ljóst að þrengt er svo verulega að einkareknum fjölmiðlum að lýðræðislegri umræðu stendur ógn af,“ segir í ávarpi Herdísar Dafnar Fjeldsted, forstjóra Sýnar, og Hákonar Stefánssonar, stjórnarformanns félagsins, í ársskýrslu fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins.

Þau segja það skjóta skökku við að á meðan ríkismiðillinn fjármagni dagskrárgerð sína með u.þ.b. 9 milljörðum króna á ári „og fyrirhugar þvert á markmið þjónustusamnings við stjórnvöld, hafa stjórnvöld boðað lækkun styrkja til frjálsra fjölmiðla um tugi milljóna króna, í nafni aðhalds í rekstri“.

Grunnreksturinn ekki skilað ásættanlegum hagnaði um langt skeið

Sýn, sem heldur m.a. úti starfsemi Vodafone, Stöðvar 2, Vísi, Bylgjunnar og FM957, tapaði 1,5 milljörðum króna árið 2024. Sala félagsins dróst lítillega saman á milli áranna 2023 og 2024.

Herdís Dröfn og Hákon segja grunnstarfsemi Sýnar ekki hafa skilað ásættanlegum hagnaði um langt skeið „sem ekki er sjálfbært til lengri tíma“. Þetta hafi kallað á stefnu- og áherslubreytingar innan félagsins með það að markmiði að bæta afkomu á öllum sviðum.

Þau segja Sýn sérstaklega horfa til vaxtartækifæra á fyrirtækjamarkaði með lausnum sem tengja saman kjarnafærni Sýnar í fjarskiptum og upplýsingatækni. Á einstaklingsmarkaði leiki endurkoma enska boltans lykilhlutverk.

„Við vitum að markaðurinn vill sjá árangur – ekki bara heyra um áætlanir. Þótt við höfum þurft að endurmeta spá okkar fyrir 2025 þá trúum við því að þær aðgerðir sem við höfum ráðist í muni skila betri afkomu og styrkja rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar.“

Herdís Dröfn og Hákon ítrekuðu skilaboð félagsins frá markaðsdegi í nóvember sl. þar um að félagið hafi undanfarin ár „að ákveðnu leyti verið rekið sem safn sjálfstæðra eininga án samræmdrar stefnu og heildstæðrar nálgunar fyrir félagið“.