Verðið sem danska ríkið bauð í 59,4% hlut í rekstrarfélagi Kastrup flugvallar hefur vakið mikla undrun meðal sérfræðinga innan flugiðnaðarins. Danska viðskiptablaðið Börsen fjallar um málið í morgun.
Danska ríkið hyggst greiða 32 milljarða danskra króna fyrir 59,4% hlutinn í rekstrarfélagi Kaupmannahafnarflugvallar.
Með kaupunum eykst eignarhlutur ríkisins í 98,6%. Seljendurnir eru kanadíski lífeyrissjóðurinn OTPP og danska lífeyrissjóðurinn ATP.
Heildarvirði Kastrup eftir viðskiptin eru því tæpir 54 milljarðar danskra króna.
Mikið yfirverð
P/E-hlutfall rekstrarfélag Kastrup flugvallar - hlutabréfaverð í hlutfalli við hagnað - er 49 þegar miðað við að hagnaður ársins 2024 verði í efri mörkum áætlana, eða 1,1 milljarður danskra króna.
Jacob Pedersen, greinandi hjá Sydbank, bendir á í samtali við Börsen að jafnvel fyrirtæki með sterkar vaxtarhorfur séu sjaldan metin svona hátt, en vaxtamöguleikar Kastrup séu litlir.
Til samanburðar er P/E-hlutfallið í sambærilegum flugvöllum eins og í Frankfurt, Zürich og Vín, á bilinu 11 til 21.
Þetta þýðir að ríkið greiðir miklu hærra verð fyrir hverja krónu í hagnaði en algengt er fyrir sambærileg félög og einnig mörg af eftirsóttustu fyrirtækjum heims.
Sum af stærstu og eftirsóttustu fyrirtækjum í heimi eru metin á mun lægra verði en Kastrup. Nvidia er með P/E-hlutfallið 33, Amazon er með 35 og Apple 32.
Kaup ríkisins á Kaupmannahafnarflugvelli
Fram hefur komið að kanadíski lífeyrissjóðurinn OTPP vildi selja sinn hlut hratt. Einnig hefur verið upplýst að ástralski sjóðurinn Macquarie hafi skoðað möguleikann á að kaupa hlutinn aftur, en sjóðurinn seldi sig út árið 2017.
Danska ríkið á kafi í flugrekstri
Kastrup opnaði árið 1925 en upp úr 1990 hóf danska ríkið að selja hlut af eign sinni í flugvellinum og árið 2000 seldi ríkið enn frekar. Eftir söluna átti ríkið 34% hlut. Síðan þá hefur eignarhluturinn aukist í 39,2% þar sem flugvallarfélagið keypti reglulega eigin hlutabréf.
Í desember 2005 eignaðist ástralski fjárfestingasjóðurinn Macquarie 52,4% hlut í Kaupmannahafnarflugvelli. Árið 2017 seldu Ástralirnir hlutabréf sín til danska lífeyrissjóðsins ATP og kanadíska lífeyrissjóðsins OTPP.
33% farþega flugvallarins fljúga með SAS. Danska ríkið á 25,9% hlut í flugfélaginu en rekstur þess hefur gengið mjög illa um langt skeið.
Fjármálaráðherrann ver ákvörðunina
Fjármálaráðherra Danmerkur og þingmaður Jafnaðarmanna, Nicolai Wammen, sagði á blaðamannafundi að kaupin væru gerð til að tryggja ró um eignarhaldið og skapa forsendur fyrir viðhaldi mikilvægra innviða. Hann fullyrti að verðið sem greitt var sé innan marka þess sem sanngjarnt getur talist á markaði.
Þessu eru sérfræðingar ósammála. Sumir þeirra telja að ríkið hljóti að hafa byggt ákvörðun sína á upplýsingum sem ekki eru aðgengilegar almenningi og að þær upplýsingar hljóti að hafa ráðið miklu um þetta óvenjulega verð.
Sumir telja að ríkið hafi óttast að eignin gæti lent í höndum aðila sem það teldi óæskilegan, jafnvel með pólitísk tengsl.
Fengu ráðgjöf
Áður en ríkið lagði fram endanlegt tilboð fékk það ráðgjöf frá tveimur alþjóðlegum ráðgjafarfélögum, Rothschild & Co., einu stærsta fjármálaráðgjafarfyrirtæki heims og sænska fjárfestingabankann SEB.
Bæði fyrirtækin skiluðu inn svokallaðri „fairness opinion“, sem er skýrsla sem metur sanngjarnt verð fyrir tiltekna eign. Þessar skýrslur innihéldu verðbil sem taldist réttlátt fyrir Kaupmannahafnarflugvöll. Ekki er vitað hvert verðbilið var og hvort ríkið hafi fylgt ráðgjöfinni.