Hlutabréfaverð hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Software hefur hækkað um 12% í fyrstu viðskiptum í dag þrátt fyrir að félagið hafi ekki birt neina kauphallartilkynningu á undanförnum dögum.
Viðskiptamiðlar á borð við MarketWatch og Børsen rekja hækkunina til færslu Keith Gill, sem gengur undir nafninu „Roaring Kitty“, á samfélagsmiðlinum X þar sem hann deildi GIF-sniði af tónlistarmanninum Rick James, sem gaf út lagið Unity árið 1983.
— Roaring Kitty (@TheRoaringKitty) January 2, 2025
Keith Gill er hvað þekktastur fyrir þátt sinn í kaupæði í kringum hlutabréf GameStop sem margfölduðust í verði á árinu 2021 þrátt fyrir að horfur í rekstri raftækjaverslunarkeðjunnar gáfu ekki tilefni til þess.
Gill vakti á sínum tíma athygli á stórum skortstöðum vogunarsjóða á hlutabréfum GameStop og spáði því réttilega að hækkun á hlutabréfaverði félagsins myndi leiða til þess að sjóðirnir yrðu að kaupa hlutabréf í GameStop til að loka skortstöðum sínum til að koma í veg fyrir enn meira tap.
Eignarhlutur Davíðs hækkað um 3 milljarða í dag
Davíð Helgason er einn þriggja stofnenda Unity sem var sett á laggirnar árið 2004. Hann starfaði sem forstjóri Unity fram til ársins 2014 en situr í dag í stjórn félagsins.
Davíð á um 8 milljónir hluta, eða tæplega 2,0% eignarhlut, í Unity. Eignarhlutur hans er ríflega 202,4 milljónir dala að markaðsvirði, eða sem nemur 28,2 milljörðum króna á gengi dagsins. Markaðsvirði eignarhlutar Davíðs hefur hækkað um meira en 3,5 milljarða króna í dag.