Félag atvinnurekenda hefur skrifað Eyjólfi Ármannssyni innviðaráðherra erindi og hvatt hann til að beita sér fyrir því að vegabætur á Þrengsla- og Þorlákshafnarvegi verði settar á samgönguáætlun.
Tvö skipafélög, sem veita Eimskipi og Samskipum samkeppni, reka nú áætlunarsiglingar til og frá Þorlákshöfn og bendir FA á að betri vegur til Þorlákshafnar væri mikilvæg samkeppnisaðgerð.
Í erindinu er kallað eftir svörum ráðuneytisins við spurningum FA sem settar voru fram í erindi haustið 2023 stuttu eftir að Samkeppniseftirlitið birti álit sitt um samkeppni í flutningum í framhaldi af ákvörðun SKE vegna samkeppnisbrota Eimskips og Samskipa.
Innviðaráðuneytið hefur enn ekki svarað því hvernig það hyggist bregðast við tilmælum samkeppnisyfirvalda.
Smyril Line Cargo hefur starfað þar um nokkurt árabil og heldur uppi áætlunarsiglingum milli Þorlákshafnar og Þórshafnar, Hirtshals og Rotterdam. Torcargo hefur nýhafið áætlunarsiglingar milli Rotterdam og Þorlákshafnar.
„Margir kostir eru við staðsetninguna í Þorlákshöfn, m.a. að siglingaleiðin er styttri og sótsporið minna. Hins vegar þurfa skipafélögin sem þar starfa að flytja vörur um lengri veg á landi til stærsta markaðarins á höfuðborgarsvæðinu en stóru skipafélögin sem hafa aðstöðu í Sundahöfn,“ segir í erindi FA.