Rafbílaframleiðandinn Tesla tilkynnti í vikunni um verðlækkanir hér á landi á Model Y og Model 3 bifreiðunum. Lækkanirnar nema frá 1,4% til 6,3%, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um.

Bílaumboðið Una, sem opnaði fyrir innan við þremur vikum, telur að verðlækkanir Tesla séu í takt við viðbrögð Tesla erlendis við innkomu kínverska framleiðandans Xpeng á markað.

Bílaumboðið, sem hefur umboð fyrir Xpeng á Íslandi, bendir á að eftir verðlækkanir Telsa er verð á ódýrustu útgáfunni af Model Y og Xpeng G6, sem er bíll í sama stærðarflokki, nánast það sama upp á krónu.

Þannig kosti afturhjóladrifnir bílar beggja framleiðenda í sömu stærð 5.990 þúsund krónur að teknu tillit til rafbílastyrks Orkusjóðs, þótt munur sé á útbúnaði og ábyrgð.

„XPENG er greinilega að ýta við markaðnum, enda gæðastaðallinn hár og verðmiðinn sanngjarn,“ segir Þorgeir Pálsson framkvæmdastjóri Xpeng á Íslandi.

„Svo skemmir ekki að það er lengri ábyrgð en gengur og gerist á bæði bílum og rafhlöðum. Þetta er jákvætt heilt yfir fyrir bílamarkaðinn hér heima þar sem aukið framboð rafbíla styður við áætlanir um orkuskipti í samgöngum og sjálfbærni. XPENG er nýtt merki með vandaða framleiðslu inn á þennan markað sem þörf var á.“

Bílaumboðið Una, sem er systurfyrirtæki Bílaumboðsins Öskju, opnaði 21. september síðastliðinn. Þorgeir segir að viðtökurnar á bílunum hafi farið fram úr björtustu vonum bílaumboðsins.

Xpeng G6.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Rafbílaframleiðandinn Xpeng Motors var stofnað árið 2014 og er með höfuðstöðvar í Guangzhou í Kína. Í bílaflota Xpeng má telja G6 jepplinginn, P7 og G9 lúxusjepplinginn, en Xpeng hefur einnig verið að færa út kvíarnar á erlendum mörkuðum, þar á meðal í Evrópu.

Xpeng, sem starfrækir rannsóknar- og þróunarmiðstöðvar í Kína og Kísildalnum í Bandaríkjunum, leggur m.a. áherslu á nýjustu tækni á sviði gervigreindar og sjálfkeyrandi eiginleika í sinni þróun.

Xpeng hefur verið að ná betri fótfestu í Evrópu, einkum í Noregi þar sem framleiðandinn skráði 301 ökutæki í september eftir að hafa selt 18 árið áður.