Samferða auknum vinsældum hlaðvarpa hafa spurningar vaknað um starfsemi þeirra, þá helst hvort þau falli undir skilgreininguna á fjölmiðli. Á síðasta ári var nokkrum hlaðvörpum gert að skrá sig sem fjölmiðla að beiðni Fjölmiðlanefndar.
Þrátt fyrir áminningar Fjölmiðlanefndar liggur enn á huldu hvort hlaðvörp flokkast sem fjölmiðlar. Almennt telur Fjölmiðlanefnd að hlaðvarp teljist fjölmiðill ef það uppfyllir skilyrði laga um fjölmiðla, sbr. 13. tölul. 1.mgr. 2. gr. laganna, þ.e. að miðla með reglubundnum hætti til almennings efni er lýtur ritstjórn. Þrátt fyrir að uppfylla þetta skilyrði er ekki sjálfgefið að hlaðvarp teljist fjölmiðill í skilningi laga um fjölmiðla. Til að mynda kemur fram í 2. gr. starfsreglna Fjölmiðlanefndar nr. 1363/2011 að persónulegar bloggsíður falli utan hugtaksins í skilningi laganna. Þá telst ólíklegt að hlaðvarp sem svipar til slíkrar síðu teljist fjölmiðill þótt það uppfylli fyrrnefnd skilyrði laganna. Þá segir Fjölmiðlanefnd einnig að sterk vísbending sé um að skrá beri hlaðvarp sem fjölmiðil ef fjárhagslegur ávinningur er af miðlun hlaðvarps.
Flestir þeir hlaðvarpsþættir sem þekktir eru í dag eru ekki skráðir sem fjölmiðlar hjá Fjölmiðlanefnd þrátt fyrir að flest þeirra hafi fjárhagslegan ávinning af miðlun hlaðvarpsins í gegnum sölu á auglýsingum og áskriftartekjum.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.