Björn Orri Guðmundsson, forstjóri Aftra, telur afar ólíklegt að netárásin sem gerð var á Árvakur í gær hafi verið skipulögð árás gegn útgáfufélaginu. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sagði í dag að árásin jafngildi árás á íslenskt lýðræði.
Hann segir þó að miðað við þær fréttir sem hafa birst um árásina þá virðast áhrif hennar hafa verið mikil. Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, varð fyrir stórfelldri netárás í gær með þeim afleiðingum að gríðarlegt magn gagna var tekið í gíslingu.
„Ég tel að þetta sé mun einfaldara því það er ekkert nýtt að gerast hérna. Akira er þekktur hópur sem beitir vel þekktum aðferðum. Árásin er líklega framkvæmd með sjálfvirkum aðferðum og það var einfaldlega gerð árás á næsta númer í símaskrá internetsins en ekki sérstaklega á fjölmiðil.“
Björn segir það ánægjulegt hversu vel Árvakur brást við og að útgáfufélaginu hafi tekist að koma blaðinu út í morgun þrátt fyrir árásina. Hann ítrekar þó afstöðu sína sem kom fram í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir aðeins örfáum dögum síðan að stjórnendur verði að líta á netárásir sem þessar alvarlegum augum.
„Mín persónulega skoðun er einfaldlega að stjórnendur verði að taka þessu mjög alvarlega og gera það sem þeir geta til að setja af stað vegferð þar sem þeir reyna að búa til jákvæða öryggismenningu og setja sér markmið um aukið þekkingarstig, betri yfirsýn, betri varnir og betri viðbrögð við slíkum árásum.“
Björn ráðleggur einnig öllum sem eru með reikning á mbl.is að skipta um lykilorð og ef þeir nota sömu lykilorð á öðrum síðum þá að skipta þeim út líka.