Heiðar Guðjónsson fjárfestir gerir Carbfix, dótturfélag Orkuveitunnar, að umfjöllunarefni í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Hann gagnrýnir umfangsmikinn fjárhagslegan stuðning Orkuveitunnar við verkefnið sem hann telur alltof áhættusamt fyrir borgarsjóð og borgarbúa.

Heiðar spyr um ábyrgð stjórna Orkuveitunnar og Carbfix á verkefninu þegar ljóst sé að fjármunum hefði verið sólundað.

„Þá má líka spyrja um ábyrgð borgarstjóra og borgarstjórna sem létu þessa vitleysu viðgangast.“

„Áhuginn var enginn“

Árið 2022 kynnti Orkuveitan áform um að sækja nýtt hlutafé í Carbfix. Fjárfestingarbankinn Morgan Stanley var ráðinn til að selja hlutabréf í fyrirtækinu í ársbyrjun 2023.

„Í stuttu máli sagt seldust engin hlutabréf og áhuginn var enginn, nema ef til kæmi bakábyrgð frá Orkuveitunni,“ segir Heiðar. „Meira að segja ég myndi kaupa hlutabréf í Carbfix ef ég fengi bakábyrgðir frá Orkuveitunni, þrátt fyrir að trú mín á verkefninu sé engin.

Síðasta haust var aftur sagt við stjórn Orkuveitunnar að þau ættu að samþykkja lánalínu, til að halda starfsemi Carbfix gangandi, því von væri á fjárfestum í verkefnið. Það bólar ekkert á þeim aðilum og ég tel engar líkur á að þeir komi.“

Í lok síðasta árs samþykkti stjórn Orkuveitunnar að hækka lánalínu Carbfix um 5 milljarða króna, upp í 12 milljarða króna. Heiðar furðar sig á þessari ráðstöfun þar sem það hafi „legið skýrt fyrir allt frá 2022 þegar stofnað var til verkefnisins að það væri alltof mikil hætta fyrir borgarsjóð og borgarbúa að taka þátt í svona verkefni. Til þess þyrfti alþjóðlega áhættufjárfesta.“

Upphaflega hugmyndin góð

Heiðar tekur þó fram að hann telji þá jarðfræðinga sem þróuðu tækni til að minnka útblástur Hellisheiðarvirkjunar með því að binda koltvísýring í berg vera framsýna. Hugmyndin hafi verið að nota útblástur, sem var við hlið virkjunar, til að dæla ofaní borholur sem þegar voru til staðar.

„Carbfix er fyrirtæki sem byggir á því að setja koltvísýring á sérútbúin skip, sem eru ólíuknúin, og þurfa að sigla mörg þúsund kílómetra til Íslands. Fyrir þau skip þarf að byggja sérstaka höfn, bora sérstakar holur til niðurdælingar og eyða mikilli orku og fjármunum til þess. Það sér hver einstaklingur að fyrri hugmyndin var góð en sú seinni ekki jafn góð.“

Í greininni, sem áskrifendur geta nálgast í heild sinni hér, setur Heiðar Carbfix verkefnið í samhengi við Orsted, stærsta aðila Evrópu í því að fanga koltvísýring, sem dró sig út af markaðnum á dögunum.

Þess má geta að Heiðar fjallaði einnig um Carbfix í aðsendri grein á Vísi um mitt ár 2024.