Sigurður Helgason eldri, fyrrverandi stjórnarformaður Flugleiða og Loftleiða, telur að Icelandair hafi góða möguleika á því að halda þeirri markaðshlutdeild sem félagið hefur í dag. - Og hugsanlega bæta við sig.
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við hann í tímaritinu Áramót sem Viðskiptablaðið gefur út.
,,Ferðamennska á eftir að vaxa hér á landi en flutningar ferðamanna til landsins bjóða upp á góða tíðni flugs til landsins. Ísland virðist bjóða upp á mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Annar þáttur sem skiptir líka miklu máli er sú staðreynd að í norðlægari hluta Evrópu er lítið um beint flug til Bandaríkjanna. Í því felast miklir möguleikar fyrir Icelandair sem flýgur til margra staða í þessum heimshluta. Gott dæmi um þetta er Boston-flugið sem er ein besta leið félagsins. Sama á líklega við um Tórontó en því miður er ekki flogið þangað í vetur. Icelandair flýgur til 5-7 staða í Norður-Ameríku og býður upp á góða þjónustu fyrir þá farþega frá Norður-Evrópu sem eiga erindi þangað," sagir Sigurður.
Sigurður sagði að einnig skipti miklu máli að flugyfirvöld hér hafa verið mjög jákvæð flugrekstri. Auðvelt hafi verið að skrá flugvélar þó eigendur hafi verð víða um heim. Það skiptir miklu að búa ekki til mikið skrifræði í kringum atvinnulífið. Sé þess gætt eigi félag eins og Icelandair góða möguleika.