Jón Steinsson, prófessor í hagfræði við University of California, Berkeley, segist mun jákvæðari gagnvert íslensku krónunni en hann var fyrir 10 eða 15 árum síðan.
Þetta kemur fram í Facebook færslu Jóns í tilefni af áformum nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins um að í upphafi kjörtímabils verði óháðum erlendum sérfræðingum falið að vinna skýrslu um kosti og galla krónunnar og valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum.
Stjórnarsáttmálinn kveður einnig á um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu eigi síðar en árið 2027.
„Stjórnarsáttmálinn talar um skýrslu um kosti og galla krónunnar. Það er flókið mál,“ segir Jón.
„Kostirnir eru stórir en gallarnir eru það líka. Ég verð samt að segja að síðustu ár hefur mér fundist sem gallarnir séu að minnka. Krónan virðist hafa meiri trúverðugleika en áður.“
Jón segir að vaxtamunur við útlönd hafi lækkað á síðustu árum, þó hann hafi vissulega verið mikill undanfarin tvö ár.
„Þetta er athyglisvert í ljósi hrunsins. En á móti kemur að vel hefur verið haldið á ríkisfjármálum í nokkra áratugi og verðbólga hefur verið mun lægri síðustu 30 árin en 30 árin þar á undan.
Ég er mun jákvæðari varðandi krónuna en ég var fyrir 10 eða 15 árum. Það verður athyglisvert að lesa hvað erlendu sérfræðingarnir segja.“