„Litla opna hagkerfið Ísland á enda allt sitt undir verðmætasköpun og utanríkisviðskiptum,“ sagði Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í dag þar sem hún beindi spurningum til fjármálaráðherra um nýja tolla sem Bandaríkin hyggjast leggja á innflutningsvörur.

Í ræðu sinni vakti Hildur athygli á því að Ísland kæmi betur út en flestar vinaþjóðir í nýjum tollaaðgerðum sem Bandaríkjaforseti kynnti í gærkvöldi.

„Lágmarkstollur upp á 10% skyldi lagður á öll ríki, þar á meðal Ísland,“ sagði Hildur. „Bandaríkjaforseti boðaði 15% toll á vörur frá Noregi og 20% á öll Evrópusambandsríki, þar á meðal Norðurlandaþjóðirnar Danmörku, Svíþjóð og Finnland. Sviss og Liechtenstein, hinar EFTA-þjóðirnar tvær, fá á sig yfir 30% toll.“

Hún benti á að staða Íslands væri öfundsverð í samanburði. „Ísland sleppur betur en flestar vinaþjóðir, frú forseti. Velta má fyrir sér hvort það sé einmitt vegna þess að Ísland hefur lagt kapp á að stunda opin viðskipti við umheiminn,“ sagði Hildur.

Hún spurði síðan fjármálaráðherra hvaða skýringar hann telji liggja að baki því að Ísland sleppi svona vel frá boðuðum tollum Bandaríkjaforseta.

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra tók undir mikilvægi málsins en var þó varfærinn í túlkunum á tollunum.

„Það er að vísu í fyrsta lagi erfitt að spá fyrir um það hvernig þessar ákvarðanir eru nákvæmlega teknar,“ sagði hann. „En sennilegast er að viðskiptahalli Íslands gagnvart Bandaríkjunum sé nærtækasta skýringin.“

Að sögn ráðherrans séu markmið tollanna að draga úr viðskiptahalla Bandaríkjanna. „Það myndi eðlilega skjóta nokkuð skökku við að ráðast á þau hagkerfi sem ekki leggja til hans.“

Hildur fylgdi eftir með annarri spurningu og rifjaði þá upp stefnu ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins.

„Árið 2014 afnam þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar almenn vörugjöld og ári síðar alla tolla á innflutning fyrir utan matvöru,“ sagði hún. „Afnám tolla og vörugjalda hefur sannarlega vænkað hag íslenskra heimila, neytenda og fyrirtækja í landinu.“

Ísland með í hefndartollum?

Hún vék svo að alþjóðlegum áhrifum af tollum Trump þar sem ESB hefur sagst tilbúið að ráðast í hefndartolla gegn Bandaríkjunum.

„Liggur beinast við að spyrja ráðherra hvort til greina komi að taka þátt í slíkum aðgerðum með Evrópusambandinu og vinda þannig ofan af ávinningi tollaafnáms. Og þá í beinu framhaldi hvort ráðherra telji hagsmunum Íslands betur borgið innan ESB?“

Daði Már sagði að engin umræða hefði átt sér stað um nein viðbrögð.

Hann tók þó undir mikilvægi tollfrjálsra viðskipta fyrir neytendur en áréttaði að Ísland væri ekki endilega fyrirmyndarland þegar kæmi að tollfrelsi.

„Það er nú samt kannski rétt að árétta að Ísland er meðal þeirra þjóða í heiminum sem enn eru með frekar háa tolla og það kemur til vegna þess sem hv. þingmaður nefndi, að við erum með nokkuð umfangsmikla tollvernd á landbúnaðarvörum þannig að það er ekki þannig að Ísland sé eitthvert höfuðból tollfrelsis, þvert á móti,“ sagði Daði Már.