Ákveðið hefur verið að Teris og Mentis hf. sameinist og er stefnt að því að sameiningin verði að fullu komin til framkvæmdar fyrir lok október næstkmandi. Mentis hf. hefur um nokkurt skeið verið 100% í eigu dótturfélags Teris, segir í fréttatilkynningu.

Sameiningin er liður í að styrkja vöruframboð Teris og um leið að efla þróun og þjónustu við þær vörur sem Mentis hefur þróað og markaðssett. Við sameininguna munu flestir starfsmenn Mentis flytjast yfir til Teris.

Eftir sameininguna verða vörur Mentis þróaðar, markaðssettar og seldar undir merkjum Teris. Þjónusta og rekstur á þessum vörum mun jafnframt færast yfir til Teris sem hefur sérhæft sig í þjónustu við fyrirtæki á fjármálamarkaði síðastliðin 20 ár. Vörulínur fyrirtækjanna falla mjög vel saman og styrkja hvor aðra. Viðskiptavinir Teris eru fjölmörg fjármálafyrirtæki á Íslandi og eru margir viðskiptavinir Mentis nú þegar í hópi ánægðra viðskiptavina Teris. Teris veitir þjónustu við um það bil 60 kerfi fyrir fjármálafyrirtæki og er vörulína Mentis öflug viðbót við þá flóru.

Viðskiptavinir Mentis eiga ekki að verða varir við aðrar breytingar en þær að stefnt er að því að efla enn frekar þá þjónustu sem þeir hafa fengið hingað til. Starfsfólk Teris hlakkar mikið til að þjóna nýjum viðskiptavinum og fagnar jafnframt að veita aukna þjónustu til núverandi viðskiptavina. Þá er nýtt starfsfólk boðið sérstaklega velkomið í hóp starfsfólks Teris.