Tesco, stærsta smásölukeðja Bretlands, hyggst hækka tímakaup 220 þúsund starfsmanna í verslunum félagsins um 7%. Þetta kemur fram í grein hjá Reuters. Launahækkunin mun kosta Tesco um 230 milljónir punda, eða sem nemur 40 milljörðum króna, að því er kemur fram í grein Reuters.
Tesco, sem er einn stærsti atvinnurekandi Bretlands, hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið USDAW um að hækka laun starfsmanna verslana félagsins úr 10,3 pundum á tímann upp í 11,02 pund, eða sem nemur 1.920 íslenskum krónum. Hækkunin tekur gildi þann 2. apríl næstkomandi.
Launahækkunin mun án efa fanga athygli Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, sem stendur í ströngu þessa dagana við að minnka verðbólguna í Bretlandi, sem mældist 10,1% í janúar. Bankinn hækkaði stýrivexti um hálfa prósentu í byrjun mánaðarins, upp í 4,0%. Næsta vaxtaákvörðun bankans er þann 23. mars næstkomandi.
Mikil spenna er á breskum vinnumarkaði, en atvinnuleysi hefur ekki verið lægra í fimm áratugi. Þá hefur verðbólgan að undanförnu aukið kröfur um frekari launahækkanir.
Mikið hefur verið um launahækkanir hjá stórum atvinnurekendum í Bretlandi að undanförnu. Rétt fyrir helgi tilkynnti Asda, þriðja stærsta smásölukeðja Bretlands, um 10% launahækkun fyrir starfsfólk sitt. Þá tilkynnti Sainsbury‘s, næst stærsta smásölukeðjan, um 7% launahækkun.