Tesla segist vera að þróa ódýrari útgáfu af Tesla-Y sem verður frumsýndur í Kína í von um að endurheimta markaðshlutdeild sína á kínverskum markaði. Verkfræðingar Tesla stefna að því að lækka framleiðslukostnað bílsins um 20-30%.

Bíllinn verður fyrst fáanlegur í Kína, þar sem Tesla hefur verið í harðri samkeppni við innlenda framleiðendur, en útgáfur verða svo seldar til Bandaríkjanna og Evrópu.

Sala Tesla í Kína jókst á síðasta ári en salan jókst samhliða stækkandi rafbílamarkaði þar í landi. Markaðshlutdeild félagsins lækkaði þó úr 12% niður í 10%. Tesla vonast þá til að geta hafið fjöldaframleiðslu á bílnum snemma árs 2026.

Tesla hefur einnig uppfært Model Y-bílana sína í Kína með því að gefa þeim sléttara útlit og minni framljós, svipuð og þau sem sjást á Cybercab og Cybertruck-bílunum. Þá var einnig átta tommu skjár bættur inn í bílinn fyrir farþega í aftursætinu.

Rafbílaframleiðandinn seldi um 30 þúsund bíla sem framleiddir voru í Shanghai en það er versta mánaðarlega söluafkoma Tesla síðan í júlí 2022.