Rafbílaframleiðandinn Tesla gerir ráð fyrir að söluaukning fyrirtækisins dragist saman milli ára og verði mun minni en árið 2023 þegar sala jókst um 38% milli ára.

Tesla birti afkomu fjórða ársfjórðungs 2023 eftir lokun markaða vestanhafs í gær en samkvæmt frétt BBC lækkuðu hlutabréf Tesla um 6% eftir tilkynninguna.

Tesla lækkaði verð nokkrum sinnum á síðasta ári til að reyna að auka eftirspurn. Sú ákvörðun virðist hafa borið árangur en fyrirtækið seldi 1,8 milljónir bíla árið 2023. Tekjur jukust þó ekki jafn mikið en á fjórða ársfjórðungi jukust tekjur aðeins um þrjú prósent miðað við sama tímabil árið 2022.

Í tilkynningu til fjárfesta var greint frá því að ekki væri stefnt á aukin umsvif fyrr en að næsta tegund yrði kynnt. Fyrirtækið bíður eftir grænu ljósi frá yfirvöldum til að hefja framleiðslu á nýrri tegund sem yrði ódýrari en Model Y týpan.

Elon Musk, eigandi Tesla, hefur einnig varað við því að ef viðskiptahindrunum verði ekki komið fyrir muni kínverskir keppinautar rústa öllum öðrum rafbílaframleiðendum í heiminum.

Ákall Musk kemur eftir að kínverski rafbílaframleiðandinn BYD tók fram úr Tesla sem söluhæsti rafbílaframleiðandi heims á fjórða ársfjórðungi. Kínverskir rafbílaframleiðendur hafa lækkað verð samhliða minni hagvexti þar í landi. Á sama tíma hefur rafbílasala í Evrópu dregist saman um 17%.