Tesla hefur valið indversku borgirnar Nýju Delí og Mumbai til að hýsa sýningarsali fyrirtækisins í von um að hefja sölu á rafbílum þess í landinu. Samkvæmt Reuters hefur Tesla verið að leita að sýningarplássi á Indlandi frá því á síðasta ári.
Rafbílaframleiðandinn hefur lengi áformað að selja bílana sína á Indlandi en landið er þriðji stærsti bílamarkaður heims.
Narendra Modi forsætisráðherra Indlands hitti meðal annars Elon Musk í síðustu viku í Bandaríkjunum þar sem þeir ræddu málefni á borð við geimferðir og tækni.
Tesla mun sýna bílana sína við Aerocity, skammt frá alþjóðaflugvellinum í Nýju Delí en svæðið býður einnig upp á hótel, verslanir og skrifstofur alþjóðlegra fyrirtækja. Bandra Kurla Complex varð þá fyrir valinu í Mumbai en báðir salirnir eru um 465 fermetrar að stærð.
Dagsetningar á sýningunni hafa ekki enn verið ákveðnar en Tesla hefur þegar birt atvinnuauglýsingar fyrir 13 millistjórnendastöður á Indlandi, þar á meðal fyrir verslunar- og viðskiptastjóra.