Bílarnir frá Tesla hafa nú ratað á innkaupalista hjá kínverskum stjórnvöldum að sögn ríkisrekna fjölmiðilsins Paper.cn og þetta er í fyrsta sinn sem erlent rafbílafyrirtæki fær slíka skráningu þar í landi.

Yfirvöld í Jiangsu-héraði í austurhluta Kína gáfu nýlega út uppfærðan lista en á honum mátti einnig finna vörumerki á borð við Volvo, sem er í eigu kínverska fyrirtækisins Geely, og SAIC, sem er ríkisrekið kínverskt fyrirtæki.

Þetta þýðir að ríkisstarfsmenn og opinberar stofnanir í héraðinu geti keypt Tesla-bíla til notkunar í daglegum störfum. Breytingin undirstrikar einnig nána sambandið milli Kína og eiganda Tesla, Elon Musk.

Tilkynningin hefur farið eins og eldur í sinu á kínverskum samfélagsmiðlum og hafa sumir notendur spurt hvort erlendir bílar ættu yfirhöfuð að vera notaðir af kínverskum stjórnvöldum.

Héraðsyfirvöld hafa reynt að draga úr slíkum áhyggjum með því að segja að Tesla-gerðin sé ekki innfluttur bíll, heldur sé hann framleiddur í Kína.

Notandi bendir á að 95% allra Tesla-bíla sem notaðir eru í Kína eru framleiddir þar í landi.
© Skjáskot (Skjáskot)

Tesla rekur risastóra verksmiðju í Shanghai sem framleiddi um 947 þúsund bíla árið 2023. Kína er orðinn mun stærri markaður fyrir fyrirtækið en rúmlega helmingur allra rafbíla í heiminum er seldur í Kína. Á síðasta ári fékk Tesla næstum fjórðung af heildartekjum sínum frá Kína.