Tesla tilkynnti í morgun um verðlækkanir á Model Y og Model 3 bifreiðunum hér á landi. Ódýrasta útgáfan af Model 3 bílnum lækkar um 5,3%, úr tæplega 6.750 þúsund krónum í 6.390 þúsund krónur. Sé tekið tillit til rafbílastyrks Orkusjóðs kostar bíllinn um 5.490 þúsund krónur.

Verð á Model Y jepplingnum, sem var langvinsælasti bíllinn á íslenska bílamarkaðnum í fyrra með um 3.214 selda bifreiðar, lækkar hlutfallslega minna. Þess má þó geta að Tesla lækkaði verð á Model Y bifreiðunum í upphafi þessa árs, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um.

Verð á ódýrustu útgáfunni af Model Y lækkar í þetta skiptið um 1%, eða úr 7.170 þúsund krónum í 7.095 þúsund krónur. Að frádregnum 900 þúsund króna rafbílastyrk úr Orkusjóði, sem Tesla bifreiðarnar uppfylla skilyrði um, þá kostar ódýrasta útgáfan af Model Y um 6.195 þúsund krónur.

„Eitt af markmiðum okkar er að stuðla að hröðun orkuskipta í heiminum yfir í sjálfbæra orku, og á þeirri vegferð höfum við lagt ríka áherslu á að verð á Tesla ökutækjum séu eins hagstæð og mögulegt er á árinu 2024,“ segir í tilkynningu sem Tesla sendi frá sér í morgun.

„Þessu markmiði náum við með því að byggja á einstökum hönnunar- og framleiðsluferlum sem varða veginn til hagkvæmari og skilvirkari framleiðslu. Ávinningnum sem af þessu hlýst skilum við til viðskiptavina okkar og bjóðum afburða ökutæki á enn hagstæðara verði.“

Viðskiptablaðið greindi nýlega frá því að tekjur Tesla á Íslandi meira en tvöfölduðust milli áranna 2022 og 2023 og námu yfir 25 milljörðum króna í fyrra.