Tesla opnaði í dag sinn fyrsta sýningarsal á Indlandi en salurinn er staðsettur í Bandra-Kurla-samstæðunni í fjármálahöfuðborginni Mumbai. Á vef ABC segir að nýi salurinn muni virka sem flaggskip bílaframleiðandans á meðan Tesla færir út kvíarnar á Indlandi.
Tesla hefur beðið eftir að fá inngöngu á indverska markaðinn eftir tólf ára töf og markar opnunin tækifæri fyrir stækkandi neytendahóp í landinu.
Sala á rafbílum Tesla hefur dregist verulega saman vegna aukinnar samkeppni og sniðgönguherferða vegna stjórnmálaskoðana Elon Musk. Alþjóðleg sala fyrirtækisins hefur einnig dregist saman í Kína og Bandaríkjunum, tveimur af stærstu mörkuðum Tesla.
Rafbílar samsvara rétt rúmlega 2% af heildarbílasölu Indlands en ríkisstjórnin segist vilja breyta því og stefnt er á að auka hlutdeild rafbíla í landinu um 30% fyrir 2030.
Tesla mun byrja á því að flytja inn og selja Y-Model á Indlandi og verður söluverðið 6,78 milljónir rúpía, eða um 9,7 milljónir króna. Meðallaun í Mumbai samkvæmt Mera Monitor eru um 70 þúsund krónur á mánuði og til samanburðar kostar sami rafbíll frá Tesla um 5,5 milljónir króna í Bandaríkjunum.