Rafbílaframleiðandinn Tesla hyggst byggja nýja framleiðsluverksmiðju í Mexíkó og bætist þar með í hóp fjölda bílaframleiðenda sem hafa boðað starfsemi í landinu. BBC greinir frá.
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, segir að verksmiðja Tesla verði staðsett í Monterrey en borgin er í um níu klukkustunda akstursfjarlægð frá höfuðstöðvum félagsins í Austin, Texas. Reiknað er með að Tesla kynni áformin betur fyrir fjárfestum sínum á morgun.
Áhyggjuraddir hafa heyrst í Mexíkó um að nýja verksmiðja rafbílaframleiðandans gæti haft áhrif á vatnsbirgðastöðu svæðisins. Lopez Obrador hefur aftur á móti sagt að hann hafi fengið vilyrði frá Elon Musk, forstjóra Tesla, um að svo verði ekki. Forsetinn bendir á að jákvætt sé að fá erlenda fjárfestingu inn í landið og verksmiðjan muni skapa fjölda nýrra starfa.