Rafbílaframleiðandinn Tesla hefur tilkynnt um að fyrirtækið muni segja upp meira en 10% af starfsfólki sínu. Í minnisblaði frá Elon Musk segist hann hata ekkert meira en uppsagnir. Fyrirtækið ætti hins vegar engra kosta völ.

Tælega 140 þúsund manns störfuðu hjá Tesla á heimsvísu í desember samkvæmt ársuppgjöri félagsins.

„Það er ekkert sem ég hata meira, en það verður að gera þetta. Þetta mun gera okkur kleift að vera grennri, nýstárlegri og hungraðri fyrir næsta vaxtarskeið,“ segir í tölvupósti frá Musk til starfsmanna.

Hann sagði að félagið væri að undirbúa næsta vaxtafasa og þurfi því að horfa á hvert atriði sem snýr að rekstrinum og skipuritinu til að hagræða og auka framleiðni.

Tesla birtir ársfjórðungsuppgjör í þessum mánuði en hefur þegar greint frá samdrætti í afhendingu nýrra bíla á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Fyrirtækið fækkaði einnig starfsfólki í verksmiðju sinni í Shanghai og tilkynnti starfsmönnum sínum sem vinna við Cybertruck-jeppann um að fækkað yrði vöktum.

Þá hefur Tesla einnig sett áform um að framleiða ódýran rafbíl á ís en eitt af langvarandi markmiðum Musk var að búa til rafbíl á viðráðanlegu verði fyrir almenning.

Hlutabréfaverð Tesla hefur fallið um meira en 3% í fyrstu viðskiptum á bandaríska hlutabréfamarkaðnum.