KLAK - Icelandic Startups, í samstarfi við Nova og Huawei, hefur nú opinberað þau tíu öflugu nýsköpunarteymi sem valin hafa verið til þátttöku í Startup SuperNova 2025, einum stærsta viðskiptahraðli landsins.
Hraðallinn hefst 5. ágúst og lýkur með fjárfestadegi 19. september.
Lausnir teymanna í ár takast á við raunverulegar áskoranir á sviðum eins og heilbrigðistækni, fjármálum, öryggisstjórnun, gervigreind og ferðaþjónustu og bjóða upp á alvöru tækifæri til alþjóðlegs vaxtar.
Í gegnum þátttöku í hraðlinum fá teymin aðgang að sérsniðinni fræðslu, leiðsögn frá sérfræðingum og tengslaneti, bæði innanlands og erlendis. Startup SuperNova hraðalinn er hannaður til að undirbúa teymi fyrir hraðan vöxt og alþjóðlega útbreiðslu og hefur reynst lykilskref á vegferð margra íslenskra nýsköpunarfyrirtækja.
„Við sem stöndum að Startup SuperNova fögnum þessum kraftmiklu teymum og hlökkum til að fylgjast með þróun þeirra næstu vikur. Þau eru lifandi dæmi um þann frumleika og metnað sem býr í íslensku nýsköpunarumhverfi. Með aðgangi að sérfræðiþekkingu og fjölbreyttum úrræðum er markmiðið að styðja þau í átt að raunverulegum vexti – bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi,” segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups.
Teymin
Alda Öryggi er stafrænt öryggisstjórnunarkerfi og app fyrir fiskiskip sem stuðlar að nútímalegu öryggi sjómanna. Lausnin var þróuð í samstarfi við íslenska sjómenn og útgerðir og styrkir öryggisvitund, reglubundna þjálfun og eftirlit. Alda tryggir að farið sé eftir alþjóðlegum öryggiskröfum og samræmir öryggisstjórnun til sjós, sem eykur öryggi áhafna og vinnuumhverfis.
Anime GenSys þróar hugbúnaðarlausn sem styður við framleiðsluferla í japanska teiknimyndaiðnaðinum. Með sjálfbærri og sérsniðinni gervigreindarlausn er hægt að margfalda framleiðni listafólks, stytta afgreiðslutíma og mæta aukinni eftirspurn án þess að skerða gæði eða sköpunarkraft.
Atlas styður við tæknilegt sjálfstæði Íslands með innlendri og einfaldri skýjalausn. Fyrirtækið býður lykilþjónustu fyrir hugbúnaðarfyrirtæki sem vilja reka lausnir sínar á öruggan og skilvirkan hátt, án flækjustigs.
Bella Books / Bella Bókar er snjallt gervigreindarkerfi sem sjálfvirknivæðir allt að 80% af endurteknum bókhaldsverkefnum, án þess að fyrirtæki þurfi að skipta um bókhaldskerfi. Lausnin tengist núverandi kerfum með öruggri API-tengingu, sér um færslur, afstemmingar og flokkun gagna. Með Bella Bókar fá stjórnendur betri yfirsýn, fjármálateymin nýta tímann í greiningar og stefnumótun, og fyrirtækið sparar bæði tíma og kostnað.
coreDMC býður upp á hugbúnaðarlausn sem einfaldar skipulagningu, sölu og framkvæmd sérsniðinna lúxusferða. Með notkun gervigreindar er hægt að auka skilvirkni, draga úr villum og tryggja hnökralausa afhendingu ferða – allt á einum stað. Lausnin er hönnuð af DMC-aðilum fyrir DMC- og ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfa sig í hvataferðum og ferðum fyrir kröfuharða viðskiptavini.
Football Mobility gerir endurheimt aðgengilega fyrir ungt fótboltafólk. Appið býður upp á sérsniðnar æfingar og fræðslu sem stuðla að betri árangri og færri meiðslum – hvort sem æft er heima, í klefanum eða á vellinum. Markmiðið er einfalt: Minni meiðsli, meiri árangur.
Journata þróar öfluga, skalanlega tæknilausn sem hjálpar stafrænum útgefendum og fréttaveitum að finna besta efnið.
MyRise er tilfinningagreint og gervigreindardrifið líkamsræktarapp sem mótar daglegar æfingar út frá markmiðum og lífsstíl hvers og eins. Appið fylgist sjálfkrafa með framvindu, býður einstaklingsmiðaða hvatningu og tengir notendur við öflugt samfélag sem styður hvert skref á leiðinni að bættum lífsstíl.
OptiDesign er gervigreindardrifin hönnunarlausn sem hjálpar arkitektum og verkfræðingum að taka snjallari, grænni og hraðari ákvarðanir með því að meta þúsundir hönnunarkosta út frá kostnaði, kolefnisspori og orkunotkun. Lausnin tengist beint við BIM-verkflæði og sameinar sjálfbæra hönnun, líftímagreiningu og fjárhagslega sýn í einu notendavænu kerfi.
VitalSync þróar tækni til að auka öryggi og styðja við sjálfstætt líf eldri borgara. Tækið fylgist með hegðun og hreyfingu notandans og getur sent tilkynningu og opnað fyrir símasamband ef atvik á sér stað, svo sem fall eða óvenjuleg breyting á mynstri. Lausnin dregur úr þörf fyrir beint eftirlit og veitir aðstandendum og þjónustuaðilum mikilvægar rauntímaupplýsingar.