Dómsmálaráðuneytið hætti á dögunum við sölu á TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, eftir mikla andstöðu við áformin. Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, segir fínt að halda flugvélinni áfram en segir þó í raun „dellu“ að hafa vélina í rekstri hjá Gæslunni.
„Menn eru enn þá að hugsa um að fara aðra leið. Jafnvel bara að þessi flugvél væri hjá Icelandair,“ segir Brynjar í nýjasta hlaðvarpsþætti Chat after Dark.
„Þeir eiga flugmenn, þeir eiga varahluti, þeir eiga flugvirkja. Af hverju er reksturinn á Landhelgisgæslunni með eina flugvél. Það getur ekki verið hagkvæmt. Í grunninn er þetta bara della að hafa flugvélina þarna.“
Eftirlits- og björgunarflugvélin TF-SIF, sem var keypt árið 2009, er sérhönnuð fyrir verkefni á Norður-Atlantshafi. Vélin hefur verið leigð út hjá Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex. Um 68% flugstunda voru í erlendum verkefnum á vegum Frontex, samkvæmt skýrslu sem Ríkisendurskoðun birti í fyrra.
TF-SIF hefur verið eina flugvélin í rekstri Gæslunnar. Rekstrarkostnaður hennar nam 769 milljónum árið 2020. Þar af voru laun og starfsmannakostnaður um 483 milljónir og viðhaldskostnaður 142 milljónir.
Brynjar telur að það væri margfalt ódýrara að tryggja minni vél sem Landhelgisgæslan myndi þá eiga með Isavia. „Eða að Icelandair, sem er með fimm svona vélar, tæki þessa bara með inn í flotann.“
„Smá klúður hjá okkur“
Landhelgisgæslan tilkynnti í byrjun mánaðarins að rekstri TF-SIF yrði hætt á árinu vegna hagræðingar. Dómsmálaráðuneytið hafði tilkynnt Gæslunni um þessa ákvörðun og lagt fyrir hana að undirbúa söluferli vélarinnar.
Brynjar segir að ráðuneytið í samstarfi við Gæsuna hafði gert áætlanir fyrir fjárlög um hvað þyrfti mikið framlag til að halda rekstri hennar óbreyttum. „Svo þegar fjárlögin eru að klárast þá átta menn sig á því að fjármagnið dugar ekki.“
Fjárveitingar til Gæslunnar á fjárlögum þessa árs voru auknar um 600 milljónir króna en það reyndist ekki nóg vegna rekstrarhalla síðasta árs. Gæslan sagði að reksturinn hafði reynst erfiður sökum olíuverðshækkana, meira umfangs, auk verri afkomu af þátttöku í Frontex en vænst var.
Brynjar segir að mistök kunni að hafa verið gerð við mat á fjárþörf Gæslunnar. Gert var ráð fyrir að aukin framlög myndu standa undir óbreyttum rekstri.
„Síðan kemur í ljós þegar fjárlagagerðin er að klárast, og er eiginlega orðin klár, að sennilega vantaði okkur meiri pening til þess að halda öllu óbreyttu. Þá eru góð ráð dýr. [...] Þetta eru svo háar tölur. Þá verðum við að skera einhvers staðar niður.“
Meðal sviðsmynda sem lagðar voru fram var að fækka einni þyrlu í flota Gæslunnar eða leggja einu varðskipi.
„Menn mátu það þannig að leggja flugvélinni væri skaðminnsta aðgerðin [...] Menn töldu allt í lagi að leggja hana af, hún væri hvort eð er svo lítið hérna. Hún væri kannski ekki algjörlega grunnstoðin í öryggi og leit,“ segir Brynjar.
„Svo ynnum við bara að því [að finna arftaka] þótt það væru einhverjir mánuðir sem enginn vél væri hérna, það væri kannski ekki stórmál. Síðan verður þetta bara risamál.“
Brynjar gengst við því að það hafi verið „smá klúður hjá okkur“ að kynna málið ekki betur fyrir þinginu og fjárlaganefndinni og upplýsa um að til stæði að finna nýja vél.
„Við þurfum aðeins að taka eigin ábyrgð á þessu. En geðshræringin var kannski aðeins umfram efni held ég.“
Brynjar ræðir um TF-SIF frá 29:33-34:05.