TGC Capital Partners, fjárfestingararmur tæknisamsteypunnar Gateway Group, hefur fjárfest í sprotafyrirtækinu Veriate ehf. sem þróar athugasemda- og skorkerfið Speakness fyrir fjölmiðla, en kerfið hefur verið í þróun og prófunum undanfarin ár.
Fjárfesting TGC Capital Partners gerir Veriate ehf. kleift að fjölga forriturum fyrir Speakness og felur samningurinn um fjárfestingu einnig í sér aðgengi að ráðgjöf Gateway Group.
Í tilkynningu segir að samningur TGC Capital Partners við Veriate ehf. sé fyrsta fjárfesting fyrirtækisins sem gerð er á Íslandi. TGC kemur inn sem hluthafi með krónu á móti krónu og sem tæknilegur kjölfestufjárfestir.
„Það er frábært að geta opnað dyrnar fyrir íslenskum fyrirtækjum inn á alþjóðlegan markað, bæði með fjárfestingum og aðgengi að bjargráðum (e. resources) hjá móðurfélaginu,” segir Ingi Björn Sigurðsson, fjárfestingarstjóri TGC Capital Partners.
Gateway Group var stofnað 1997 og er fyrirtækið með höfuðstöðvar á Indlandi og í Hollandi. Undir samsteypunni eru 20 fyrirtæki og félagið á eignarhluti í yfir 60 öðrum fyrirtækjum. Gateway Group er enn fremur með starfsemi í sextán löndum í fimm heimsálfum.
„Samsteypa Gateway Group er skuldlaus með öllu, með yfir tuttugu Fortune 500 viðskiptavini, 2300 starfsmenn og núna einnig með fyrsta íslenska fyrirtækið, sprotafyrirtækið Veriate ehf., á meðal viðskiptavina og samstarfsaðila,” segir Ingvar Örn Ingvarsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Veriate.